Sjá spjallþráð - Ljósmyndun 101 :: www.ljosmyndakeppni.is
InnskráningInnskráning
Ljósmyndun 101
Fara á blaðsíðu 1, 2  Næsta
 
Senda inn nýjan spjallþráð   Senda svar á spjallþráð    Forsíða -> Umræður -> Greinar
Sjá síðustu spjallþræði :: Sjá næstu spjallþræði  
Höfundur Skilaboð
Flugufrelsarinn


Skráður þann: 04 Jan 2010
Innlegg: 453

....
InnleggInnlegg: 15 Des 2011 - 20:30:03    Efni innleggs: Ljósmyndun 101 Svara með tilvísun

Smellti saman leiðbeiningum fyrir algera byrjendur.

http://smug.xz.is/Learn/Ljosmyndun-101/n-BwZ5vEftirfarandi er afrit eins og það leggur sig þegar þráðurinn er settur inn:
__________________________________________________________

Það er gaman að eiga góðar minningar og þá skemmir ekki að geta rifjað þær upp með því að skoða myndaalbúmin. Flestir eiga eða hafa aðgang að stafrænni myndavél í dag og restin er með myndavélasíma. Það er því leiðinlegt að geta ekki nýtt hlutina til fulls vegna vankunnáttu og enda uppi með hreyfðar, dökkar, ljósar eða óskýrar myndir, eins og við öll könnumst við að hafa tekið í gegnum tíðina.

Ekkert er leiðinlegra en að vera með augnablikið fyrir framan sig og taka misheppnaða mynd, eiga kost á annarri mynd og vita ekkert hvaða stillingum er um að kenna að hin myndin misheppnaðist. Allt of oft lendir maður í að prófa sig áfram, ýta á hina og þessa takka til að breyta einhverjum tölum sem maður hefur ekki hugmynd um hvað gera og áður en maður veit af er afmælisbarnið nánast orðið árinu eldra.


Undantekningalaust er vanþekkingu um að kenna. Vanþekking á grunnatriðum ljósmyndunar gerir það að verkum að myndirnar verða tæknilega slæmar og viðkomandi hættir til að veigra sér við að taka myndir af augnablikum sem annars gætu verið góð myndefni. Svo eru það þeir sem eiga myndavélagræjur sem kosta á við smábíl en eru alltaf með hana á „græna kassanum“. Til að geta hætt að nota „græna kassann“ eða auto stillinguna þarf að kynna sér grunnatriðin. Mér hefur fundist sú vitneskja óaðgengileg, til að mynda er hvergi minnst á slík fræði í bæklingunum sem fylgja með myndavélum og til að geta gúgglað þetta þarf oftast að vita hvað það er sem maður er að gúggla. Svo kemur auðvitað að íslenskunni en hingað til hef ég ekki rekist á íslenska vefsíðu sem kynnir þetta.


Auðvitað eru til ljósmyndanámskeið og –bækur en ég tel nauðsynlegt að geta komið lágmarksþekkingunni fyrir á A4 blaði. Maður nennir ekki að taka með sér heila bók til upprifjunar og elsku heilinn okkar getur ekki haldið námskeiðinu fersku í kollinum allt of lengi. Við þetta má bæta að alls konar myndavélar eru til sem nánast allar byggja á sömu lögmálum. Til eru frávik og þá sérstaklega í smærri myndavélum, en ég gef mér að slíkt sé ekki til, svona til einföldunar. Leiðbeiningarnar eiga mest við stórar spegilmyndavélar eins og Canon 500D, en eiga alveg jafn mikið við vasamyndavélar, að því gefnu að atriðin sem ég kem inn á séu stillanleg í þeim vélum. En nóg af formálanum, skoðum aðeins hvað það er sem ég er að tala um.


Ljósmyndun 101

Á íslenskunni er ljósmyndun tiltölulega einföld. Til að taka mynd þarf að hleypa ljósi á skynjara sem er inni í myndavélinni. Skynjarinn nemur ljósið og úr verður mynd. Til þess að myndin verði ekki úr fókus, hreyfð, of dökk, of ljós eða óskýr verður ljósmyndarinn að þekkja 3 atriði.

Já, þetta eru bara 3 atriði! Það geta allir lagt 3 atriði á minnið!


Það sem þessi hugtök hafa sameiginlegt er að stjórna því hversu mikið ljósmagn skynjarinn nemur. Oftast er hægt að breyta þessum atriðum með stillingum í betri myndavélum. Breytingarnar hafa alltaf tvíþætt áhrif sem er nauðsynlegt að þekkja. Þegar áhrifin eru metin þarf að hafa í huga að ávallt þarf ákveðið lágmark af ljósi til að ná að taka mynd. Við erfiðar aðstæður þarf því stundum að ákveða hverskonar skerðing á gæðum sé ásættanleg. Að þekkja þessi 3 atriði hjálpar til við þá ákvörðun.1. Ljósop (enska: Aperture)

Ljósið byrjar auðvitað á að fara í gegnum linsuna á myndavélinni. Inni í linsunni eru allskonar gler og svo svokallað ljósop aftast. Ljósopið er einfaldur mekanismi sem hægt er að stilla til að hleypa mismunandi stigum af ljósmagni í gegnum sig. Ekkert að óttast þó þú þurfir að lesa þetta yfir nokkrum sinnum til að skilja því ljósopið er flóknasta hugtakið af þessum 3.


Á gömlum myndavélum var ljósopið stillt með stillihring á sjálfri linsunni en nútíma myndavélar tölvustýra mekanismanum. Oftast er talað um svokallaðar f-tölur þegar talað er um ljósop og getur það verið á bilinu f/1.0 og upp í t.d. f/22. Það sem er ruglandi við þessar tölur er að þeim mun minni sem talan er, þeim mun stærra er ljósopið. Það má ímynda sér að talan snúist um það hversu mikið þú viljir draga úr ljósmagninu. Eftir því sem talan er hærri, þeim mun meira er dregið úr ljósinu.


Þau stig ljósops sem hægt er að velja fer eftir gerð linsunar, þeim mun betri linsa, þeim mun stærra ljósop (og minna f/#). Til dæmis kostar 50mm f/1.8 linsa aðeins 20.000 kr á meðan 50mm f/1.2 linsa kostar 300.000 kr. Linsurnar er svo hægt að stilla á minni ljósop (hærri f/tölu) en þetta.


Eftirfarandi er týpískur skali sem hægt er að nota í venjulegri myndavél með góðri linsu:


f/# , 2.8 , 3.2 , 3.5 , 4 , 4.5 , 5.0 , 5.6 , 6.3 , 7.1 , 8 , 9 , 10 , 11 , 13 , 14 , 16 , 18 , 20 , 22


Hér er sýnd linsa sem stillt er á minnsta mögulega ljósop. Í þessu tilviki er um að ræða f/22.

Hér er sýnd linsa sem stillt er á mesta mögulega ljósop. Í þessu tilviki er um að ræða f/1.4

Það sem segir sig sjálft er að með þeim mun stærra ljósopi færð þú meira ljós á skynjarann, sem oft getur verið markmiðið. Það sem þetta hefur einnig áhrif á er það svið myndarinnar sem er í fókus. Það gerir það að verkum að stórt ljósop eins og t.d. f/1.8 er með minna fókussvið en f/22. Í stuttu máli: Lægri f/tala = minna fókussvið. Það má ekki misskilja það sem svo að myndin sé eitthvað minna í fókus, heldur eru ákveðnir hlutar af henni í fókus meðan aðrir eru það ekki. Það fer eftir því hvað ljósmyndarinn vill.

Þetta er drastískur munur sem hefur meiri áhrif eftir því sem viðfangsefnið er nær eða eftir því sem zoomað er meira inn. Æfingin skapar meistarann þegar kemur að notkun á fókussviðinu.

Á þessari mynd var ljósopið f/2.8 notað. Þannig er styttan í fókus og bakgrunnurinn mjög óskýr.

Á þessari mynd var ljósopið f/22 notað. Þannig er styttan í fókus en bakgrunnurinn er einnig nokkuð greinilegur.Samantekt á atriði 1; „ljósop“:
a) Breytir því hversu mikið ljós fer í gegnum linsuna.
b) Breytir því hversu stórt svæði er í fókus.
c) Minni f/tala = stærra ljósop = meira ljós = minni fókus
d) Hærri f/tala = minna ljósop = minna ljós = meiri fókus

***********************************************************


2. Lokuhraði (enska: shutterspeed)

Eftir að ljósið hefur farið í gegnum linsuna kemur það að loku sem er fyrir skynjaranum. Smellurinn sem við heyrum þegar við tökum myndir er þessi loka að opnast og lokast. Við getum breytt tímanum sem hún stendur opin. Eftir því sem hún er opin lengur, þeim mun meira ljós kemst inn að skynjaranum. Gallinn á því er þó sá að þeim mun lengur sem húne r opin, þeim mun meiri líkur eru á að myndin verði hreyfð.


Hægt er að velja allskonar lokuhraða, allt frá nokkrum klukkutímum niður í 1/16000 úr sekúndu í dýrari myndavélum. Algengar myndavélar í dag bjóða upp á 30 sekúndur í annan endann og 1/4000 úr sekúndu í hinn. Það er mikið meira en nóg fyrir allt venjulegt fólk. Hægt er að fá fjarstýringar til að halda lokunni opinni í lengri tíma ef þörf er talin á því. Oftast nær eru myndir teknar á bilinu 1/30 til 1/400.


Týpískur skali í venjulegri myndavél gæti litið svona út:


1/1000 s, 1/500 s, 1/250 s, 1/125 s, 1/60 s, 1/30 s, 1/15 s, 1/8 s, 1/4 s, 1/2 s, 1 s


Góð þumalputtaregla fyrir þá sem eru með linsumyndavélar eins og Canon 500D er að með t.d. 70mm linsu þarf hraðinn að vera að minnsta kosti 1/70 úr sekúndu og þá 1/300 fyrir 300 millimetra linsu. Sé myndin tekin á minni lokuhraða en þetta eru líkur á að myndin verði hreyfð.

Á þessari mynd var lokuhraðinn 1/400 notaður til að frysta hreyfinguna.

Á þessari mynd var lokuhraðinn 0.5s notaður til að sýna hreyfinguna á hlutnum.

Á þessari mynd var lokuhraðinn 5s notaður til að sýna mikla hreyfingu á hlutnum.

Samantekt „lokuhraði“:
a) Breytir því hversu lengi lokan fyrir skynjaranum er opin og þannig ljósmagninu sem fer á skynjarann.
b) Þeim mun minni lokuhraði (t.d. 1/15s) = þeim mun meira ljós = þeim mun hreyfðari hlutir á mynd og meiri líkur á allri myndinni hreyfðri.
c) Þeim mun hærri lokuhraði (t.d. 1/400s) = þeim mun minna ljós = þeim mun frystara viðfangsefni (t.d. bíll á ferð) og þeim mun stöðugri mynd.

***********************************************************


3. ISO

Síðasta atriðið og jafnframt það einfaldasta er næmnin á sjálfum skynjaranum í myndavélinni. Ljósið endar ferlið á skynjaranum og út frá því verður myndin af viðfangsefninu. Hægt er að gera skynjarann næmari fyrir ljósi með því að breyta svokallaðri ISO stillingu. Nýrri og betri myndavélar bjóða upp á öflugri ISO stillingar en eldri myndavélar.

ISO talan er nánast undantekningalaust „núllstillt“ á 100. Við það er engin mögnun á ljósnæmi. Sumar myndavélar bjóða upp á ISO 50 en það er óalgengt.

Oftast er skalinn: 100 – 200 – 400 – 800 – 1600.

Hærri ISO tala = meiri ljósnæmni.

Við það að hækka ljósnæmnina verður skynjarinn þó móttækilegri fyrir hverskonar truflunum og misjafnt er á milli skynjara hversu miklar truflanirnar verða. Oftast er notað enska orðið „noise“ yfir slíkar truflanir. Þannig verða myndir sem eru teknar með hærra ISO, grófari í áferð, óskýrari og stundum með óæskilegum deplum. Framleiðendur myndavéla í dag eru í ISO-kapphlaupi sem gengur út á að minnka þessar truflanir.

Fyrir bestu mögulegu gæði skal velja ISO 100.
Á þessari mynd var ISO 100 notað.

Á þessari mynd var ISO 1600 notað. Fín korn eru farin að myndast og gæðin tekin að skerðast.

Á þessari mynd var ISO 6400 notað. Gæðaskerðingin er orðin töluverð.


Samantekt „ISO“:
a) Stjórnar ljósnæmni skynjara.
b) Minna ISO = minni ljósnæmni = meiri gæði
c) Hærra ISO = meiri ljósnæmni = minni gæði


***********************************************************


Það er samspil þessara þriggja hluta: ljósops, lokuhraða og ISO sem ræður allra mest um það hvernig myndin mun koma út. Við búum svo vel að búa í tölvuvæddum heimi svo það er óþarfi fyrir okkur að vera sífellt að breyta þessum stillingum, reikna út ljósmagn og annað eins og þurfti á árum áður. Myndavélar í dag eru með innbyggðum ljósmælum og geta reiknað þessar stillingar sjálfar að mestu leyti. Það tekur hana uþb. millisekúndu og gerist meðan hún er að fókusa. Þær hafa þó ekki hugmynd um það hvað við erum að taka myndir af og því er oftast boðið upp á 3 gerðir af „manual“ stillingum.

M: „Manual“. Þú stjórnar öllum 3 atriðunum. Oft þarf nokkrar tilraunir til að finna rétta stillingu. Stilling sem er mest fyrir listamanninn eða þann sem hefur öðlast góðan skilning á atriðunum 3.


Av: „Aperture priority“. Þú stjórnar ljósopinu og ISO. Myndavélin mælir svo ljósmagnið út frá þeim stillingum sem þú velur og reiknar sjálfkrafa út lokuhraða. Þetta er sú stilling sem maður velur ef maður vill ráða fókussviðinu. Best í andlitsmyndir.


Tv: „Shutter priority“. Þú stjórnar lokuhraðanum og ISO. Myndavélin mælir svo ljósmagnið út frá þeim stillingum sem þú velur og reiknar sjálfkrafa út ljósopið. Þetta er sú stilling sem maður velur ef maður vill ráða hvort hlutir séu hreyfðir eða frystir á mynd. Best í íþróttamyndir.


Ég vona að þú hafir öðlast einhvern skilning á þessum 3 atriðum en til að öðlast þekkingu og kunnáttu í notkun þeirra þarf að prófa sig áfram. Myndgæðin munu verða mun betri og sumir sjá sér fært að nota sjaldnar innbyggða flassið sem enn eykur myndgæði og sparar auk þess batteríin.


--------------------- klippa hér ---------------------

Stikkorð sem er gott að hafa hjá sér þegar maður er úti að prófa:


Ljósop (e. Aperture)
a) Breytir því hversu mikið ljós fer í gegnum linsuna.
b) Breytir því hversu stórt svæði er í fókus.

c) Minni f/tala = stærra ljósop = meira ljós = minna fókussvið
d) Hærri f/tala = minna ljósop = minna ljós = stærra fókussviðLokuhraði (e. Shutter speed)
a) Breytir því hversu lengi lokan fyrir skynjaranum er opin og þannig ljósmagninu sem fer á skynjarann.
b) Þeim mun minni lokuhraði (t.d. 1/15s) = þeim mun meira ljós = þeim mun hreyfðari hlutir á mynd og meiri líkur á allri myndinni hreyfðri.
c) Þeim mun hærri lokuhraði (t.d. 1/400s) = þeim mun minna ljós = þeim mun frystara viðfangsefni (t.d. bíll á ferð) og þeim mun stöðugri mynd.ISO
a) Stjórnar ljósnæmni skynjara.
b) Minna ISO = minni ljósnæmni = meiri gæði
c) Hærra ISO = meiri ljósnæmni = minni gæði

--------------------- klippa hér ---------------------


Endilega komið með ábendingar eða "comment" ef eitthvað þarfnast nánari útskýringar. Hugsanlega væri hægt að safna slíku í plagg sem gæti kallast Ljósmyndun 201.
_________________
Operation XZ


Síðast breytt af Flugufrelsarinn þann 21 Ágú 2013 - 16:45:04, breytt 1 sinni samtals
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst
ArnarBergur


Skráður þann: 08 Feb 2009
Innlegg: 7515
Staðsetning: Reykjavík
The Sexy thing - 6D
InnleggInnlegg: 15 Des 2011 - 20:44:23    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Þetta er flott..

Gott Gott Gott
_________________
Myndasmiður
www.facebook.com/abmyndir
www.flickr.com/arnarbg
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst MSN-skilaboð
vari


Skráður þann: 08 Ágú 2005
Innlegg: 186

Canon 5D
InnleggInnlegg: 15 Des 2011 - 20:44:43    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Þú átt mikið hrós skilið fyrir þetta. Eitthvað sem meður hefði viljað getað skoðað fyrir 2-3 árum. Á tvímælalaust eftir að koma mörgum mjög vel.
Snilld. Very Happy
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst
garrinn


Skráður þann: 06 Jan 2008
Innlegg: 3619
Staðsetning: Akureyri
Canon EOS 5D
InnleggInnlegg: 15 Des 2011 - 21:19:31    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Flott framtak..

Renndi hratt yfir þetta og finnst aðeins vanta þetta hugtak stopp, sérstaklega varðandi ljósop.

Og í framhaldi af því, hvernig þessir þrjú grunn element í ljósmyndun spila á það.

Þannig þegar hraðinn er tvöfaldaður annaðhvort upp eða helmingaður niður eða ISO er tvöfaldað upp eða helmingað niður, þá sé almennt talað um 1 stopp upp eða niður.

Dæmi: Hraðinn er 1/60 en breytt í 1/30 sem þýðir þá tvöfalt minni lokunarhraði (tvöfalt lengur opið fyrir ljósið) og þar af leiðandi tvöfalt meira ljósmagn fyrir myndina. Annað dæmi, ISO er 100 en er stillt á 200 og aftur, tvöfalt meira ljósmagn fyrir myndina.

Hinsvegar er þetta ekki alveg svona einfalt með ljósop. Því samsvarandi breyting á ljósopi er ekki línuleg tala, heldur kvaðratið af tveimur.

(Flatarmál hrings er pi*r^2 og það er einmitt þetta annaðveldi sem er þessu valdandi)

Þannig ef ljósopið er 1 og þú vilt tvisvar sinnum meir lýsingu á myndina eða hækka lýsinguna um eitt stopp, þá notar þú 1.4 í ljósop. (kvaðratið af tveimur)

Nú, ef þú ert með 1.4 og vilt hækka lýsinguna um eitt stopp, þá margfaldar þú 1.4 x 1.4 og færð út 2, osfv.

Og að sjálfsögðu er deilt með 1.4 til að helminga ljósmagnið eða gíra niður um 1 stopp.
_________________
Canon EOS 5D, 1D MKIIn
Myndir stórar - PAD Garrinn


Síðast breytt af garrinn þann 15 Des 2011 - 21:22:34, breytt 1 sinni samtals
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda
Gulli Vals


Skráður þann: 06 Apr 2011
Innlegg: 858

Canon 5D Mark II
InnleggInnlegg: 15 Des 2011 - 21:21:05    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Algjör snilld !! Gott Gott
_________________
Vertu hamingjusamur á meðan þú lifir,því þú verður lengi dauður.

http://500px.com/GulliVals/photos
http://www.flickr.com/photos/gullivals/
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda
Flugufrelsarinn


Skráður þann: 04 Jan 2010
Innlegg: 453

....
InnleggInnlegg: 15 Des 2011 - 22:51:38    Efni innleggs: Svara með tilvísun

garrinn skrifaði:
Flott framtak..

Renndi hratt yfir þetta og finnst aðeins vanta þetta hugtak stopp, sérstaklega varðandi ljósop.

Og í framhaldi af því, hvernig þessir þrjú grunn element í ljósmyndun spila á það.

Þannig þegar hraðinn er tvöfaldaður annaðhvort upp eða helmingaður niður eða ISO er tvöfaldað upp eða helmingað niður, þá sé almennt talað um 1 stopp upp eða niður.

Dæmi: Hraðinn er 1/60 en breytt í 1/30 sem þýðir þá tvöfalt minni lokunarhraði (tvöfalt lengur opið fyrir ljósið) og þar af leiðandi tvöfalt meira ljósmagn fyrir myndina. Annað dæmi, ISO er 100 en er stillt á 200 og aftur, tvöfalt meira ljósmagn fyrir myndina.

Hinsvegar er þetta ekki alveg svona einfalt með ljósop. Því samsvarandi breyting á ljósopi er ekki línuleg tala, heldur kvaðratið af tveimur.

(Flatarmál hrings er pi*r^2 og það er einmitt þetta annaðveldi sem er þessu valdandi)

Þannig ef ljósopið er 1 og þú vilt tvisvar sinnum meir lýsingu á myndina eða hækka lýsinguna um eitt stopp, þá notar þú 1.4 í ljósop. (kvaðratið af tveimur)

Nú, ef þú ert með 1.4 og vilt hækka lýsinguna um eitt stopp, þá margfaldar þú 1.4 x 1.4 og færð út 2, osfv.

Og að sjálfsögðu er deilt með 1.4 til að helminga ljósmagnið eða gíra niður um 1 stopp.Finnst þetta vera of flókið til að vera í þessum pakka, kannski í næsta Wink
_________________
Operation XZ
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst
Sæunn


Skráður þann: 10 Feb 2008
Innlegg: 81

Canon 60D
InnleggInnlegg: 16 Des 2011 - 0:43:44    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Glæsilegt og alveg ekta fyrir frumbyrjur í ljósmyndun.
Hefði sko vel getað nýtt mér þetta fyrir ári síðan.
_________________
***********
Canon EOS 60D | Canon EF-S 18-135mm f/3.5-5.6 IS | Canon EF 50mm f/1.8 II | Canon Speedlite 430EX II
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst
Micaya


Skráður þann: 17 Des 2009
Innlegg: 5015


InnleggInnlegg: 16 Des 2011 - 1:03:14    Efni innleggs: Svara með tilvísun

OFSALEGA fínt Smile
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst
Gnarr


Skráður þann: 19 Júl 2005
Innlegg: 1254
Staðsetning: Reykjavík
Canon EOS 5D Mark II
InnleggInnlegg: 16 Des 2011 - 1:12:09    Efni innleggs: Re: Ljósmyndun 101 Svara með tilvísun

Flugufrelsarinn skrifaði:


Takumarinn þinn er greinilega með geyslaveikina... Þú þarft að setja hann í sólbað Cool
_________________
Ég! - gnarr.org
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda
Flugufrelsarinn


Skráður þann: 04 Jan 2010
Innlegg: 453

....
InnleggInnlegg: 16 Des 2011 - 1:18:32    Efni innleggs: Re: Ljósmyndun 101 Svara með tilvísun

Gnarr skrifaði:
Flugufrelsarinn skrifaði:


Takumarinn þinn er greinilega með geyslaveikina... Þú þarft að setja hann í sólbað Cool


Ég... geislaveiki, wait what? Smile
_________________
Operation XZ
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst
Gnarr


Skráður þann: 19 Júl 2005
Innlegg: 1254
Staðsetning: Reykjavík
Canon EOS 5D Mark II
InnleggInnlegg: 16 Des 2011 - 1:26:22    Efni innleggs: Svara með tilvísun

guli liturinn á glerinu kemur útaf geislavirkni hrörnunar áhrifum frá thorium húðuninni. Það er hægt að losna við þennann lit með því að láta linsuna vera í útfjólubláu ljósi í langann tíma. Sumir hafa sett þær undir UV peru í 1 dag til 2 vikur og losnað þannig við gula litinn og oft grætt um 1 til 2 stopp í leiðinni þar sem að þessi gula slikja virkar eins og gulur gel filter.
Það virkar líka að setja linsuna útí glugga þannig að það skýni sólarljós á hana.
_________________
Ég! - gnarr.org


Síðast breytt af Gnarr þann 16 Des 2011 - 1:30:33, breytt 1 sinni samtals
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda
Daníel Starrason


Skráður þann: 18 Apr 2006
Innlegg: 6369

Canon EOS 5D Mark-III
InnleggInnlegg: 16 Des 2011 - 1:30:20    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Gnarr skrifaði:
hvað er gott íslenskt orð fyrir coating?


Húðun?

Annars, flottur pistill og gaman að fá nýja þræði í greinaflokkinn!
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst Heimsækja heimasíðu sendanda
Gnarr


Skráður þann: 19 Júl 2005
Innlegg: 1254
Staðsetning: Reykjavík
Canon EOS 5D Mark II
InnleggInnlegg: 16 Des 2011 - 1:30:59    Efni innleggs: Svara með tilvísun

takk daniel Smile
_________________
Ég! - gnarr.org
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda
Flugufrelsarinn


Skráður þann: 04 Jan 2010
Innlegg: 453

....
InnleggInnlegg: 16 Des 2011 - 1:34:38    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Já, var búinn að heyra af þessu með geisladótið. Áttaði mig samt ekki á því hvort það ætti við um mína, en núna er það ljóst, takk fyrir það Smile
Spurning hvort sólarljósið losi mig líka við stráin og hitt dótið sem er inní henni... en það gerir hana svosem bara sérstaka Wink
_________________
Operation XZ
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst
Gaflarinn


Skráður þann: 28 Des 2007
Innlegg: 421
Staðsetning: Hafnarfjörður
Canon EOS 40D
InnleggInnlegg: 16 Des 2011 - 10:48:10    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Flott framtak
_________________
http://www.flickr.com/photos/gaflarinn/
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda
Sýna innlegg frá síðasta:   
Senda inn nýjan spjallþráð   Senda svar á spjallþráð    Forsíða -> Umræður -> Greinar Allir tímar eru GMT
Fara á blaðsíðu 1, 2  Næsta
Blaðsíða 1 af 2

 
Fara til:  
Þú getur ekki sent inn nýja spjallþræði á þessar umræður
Þú getur ekki svarað spjallþráðum á þessum umræðum
Þú getur ekki breytt innleggi þínu á þessum umræðum
Þú getur ekki eytt innleggjum þínum á þessum umræðum
Þú getur ekki tekið þátt í kosningum á þessum umræðum


Powered by phpBB © 2001, 2005 phpBB Group