Sjá spjallþráð - Viðtal: Óskar Páll Elfarsson (oskar) :: www.ljosmyndakeppni.is
InnskráningInnskráning
Viðtal: Óskar Páll Elfarsson (oskar)
Fara á blaðsíðu 1, 2, 3  Næsta
 
Senda inn nýjan spjallþráð   Senda svar á spjallþráð    Forsíða -> Umræður -> Greinar
Sjá síðustu spjallþræði :: Sjá næstu spjallþræði  
Höfundur Skilaboð
Daníel Starrason


Skráður þann: 18 Apr 2006
Innlegg: 6369

Canon EOS 5D Mark-III
InnleggInnlegg: 09 Jún 2011 - 23:27:19    Efni innleggs: Viðtal: Óskar Páll Elfarsson (oskar) Svara með tilvísun

Hver er maðurinn á bak við notendanafnið oskar?
Ég heiti Óskar Páll Elfarsson, 27 ára strákur úr Reykjavík með sterkar tengingar við sveitastrákinn í mér. Ég hef farið í fallhlífarstökk en aldrei horft á Harry Potter. Mér finnst hvalkjöt gott en borða ekki banana.

Ég held úti vefsíðunni www.moment.is ásamt því að vera með meira efni á flickr formi á www.oskarpall.com

Ég er hress, jákvæður og uppátækjasamur.Við hvað starfar þú?
Ég starfa hjá fyrirtæki sem heitir Birtíngur en þar eru gefin út mörg helstu tímarit landsins. Ég er aðallega í myndvinnslu en stekk af og til í smá ljósmyndaverkefni eða aðstoða við þau. Þetta er alveg frábær vinna og gríðarlega gaman að vera í vinnu svo nátengdri áhugamálinu. Ég læri mikið af fólki í kringum mig og er umvafinn reyndum ljósmyndurum alla daga, sem er alveg æðislegt. Það er líka mjög gaman að vera í skapandi starfi, vinnandi að verkefnum alla daga sem prýða forsíður morgundagsins. Maður er gjörsamlega í hringiðunni.

Laumarðu myndum eftir sjálfan þig inn í umbrot blaðanna?
Ég ber fyrir mig fimmtu grein stjórnarskrár Bandaríkjanna.

Ég er grallari.

Grallararar grallarast. Opinberlega hef ég að sjálfssögðu aldrei gert neitt slíkt!

Áttu þér fleiri áhugamál en ljósmyndun?
Já, mér finnst það alveg nauðsynlegt. Ég sinni engu þeirra jafn vel og ljósmynduninni samt.

Ég hef virkilega gaman af veiði og útiveru ásamt því að stunda ýmsar íþróttir. Helgarnar gerast varla betri en þegar maður er í sveitinni heila helgi að dunda sér og á sumrin vil ég helst gista í tjaldi allar nætur, á ferð og flakki um landið. Það sést held ég ágætlega á myndum hjá mér hvernig ég blanda þessari ferðagleði við ljósmyndunina hjá mér. Á veturna reyni ég að stunda bæði fótbolta og körfubolta á vikulegum grundvelli, því ég næ hreinlega aldrei að vera duglegur að mæta í þessa blessuðu rækt.Svona er lífið einna best. Á ferð um þetta magnaða land með kærustu og myndavél, tjaldið sprettur síðan upp, þar sem og þegar mann langar að komast að sofa. Fullkomið!

Stundarðu ferðalög með ljósmyndun í huga, eða er ljósmyndunin bara fylgifiskur?
Ég hef enn ekki verið svo heppinn að komast í ferðalag eingöngu á þeim forsendum að fara að taka ljósmyndir. Ferðalög eru dýr og tímafrek, þannig að ef það ætti eingöngu að vera á ljósmyndalegum forsendum, þá væri það eflaust fyrir eitthvað verkefni, bók eða sýningu. Kannski einn daginn... vonandi.

Þegar ég ferðast þá miða ég ekki við að vera á vissum stöðum á vissum tímum dags, til þess að geta myndað þá. Ég ferðast til að ferðast og ljósmyndunin fylgir með. Vissulega spilar hún stundum stór hlutverk þegar maður er hugsanlega mun lengur að skoða einhver svæði en maður myndi gera ef maður væri ekki að mynda í leiðinni. Þar komum við eiginlega að snilldinni við þetta allt saman. Það að mynda landið sem maður ferðast um hjálpar manni gríðarlega að sjá allt mikið betur, að upplifa. Maður er meira vakandi fyrir umhverfinu og gefur sér tíma í hlutina. Ég passa mig alltaf á því á ferðalögum að leggja vélina af og til frá mér og njóta þess bara að vera. Mér finnst allt of algengt að áhugasamir ljósmyndarar gleymi alveg að njóta augnabliksins. Það hjálpar manni líka að átta sig á andrúmsloftinu sem maður vill síðan reyna að fanga á myndinni.Rauðisandur á Vestfjörðum er magnaður staður. Þarna komum við kærastan í hávaðaroki, alveg ógeðslegu veðri. Ég hefði ekki nennt út úr bílnum nema af því ég ákvað að reyna að mynda hann eitthvað. Við vorum eflaust í klukkutíma að dunda okkur í mjög eftirminnilegu stoppi, sem hugsanlega hefði orðið ansi fátæklegt ef myndavélin hefði ekki togað í mann að staldra betur við.

Hvenær fékkstu fyrst áhuga á ljósmyndun?
Þetta hefur sennilega alltaf blundað í mér, þar sem ég sníkti oft að eignast einnota myndavél þegar við fjölskyldan vorum á ferðalögum í “gamla daga”. Frændi minn kom svo heim eitt árið úr utanlandsferð með filmu SLR vél og opnaði augu mín fyrir því að venjulegt fólk gæti alveg stundað þetta, ekki bara atvinnuljósmyndarar. Ég fékk vélina hans lánaða þegar ég var svona 18 ára og skellti mér á stutt námskeið. Þar sá ég að þetta væri eitthvað sem ég hafði svolítinn áhuga á. Ári síðar var ég að skoða notaðar SLR myndavélar á Ebay án þess að hafa eitthvað vit á því hvað ég var að gera. Í einhverju stundarbrjálæði eftir góða útborgun úr sumarvinnunni breyttist innkaupalistinn úr notaðri filmuvél á 15.þ kall yfir í splunkunýja Canon 10D ásamt fylgihlutum og eftir það varð ekki aftur snúið. Sennilega viturlegasta stundarbrjálæði sem ég hef tekið. Ég sótti um í ljósmyndanefndinni í Verzlunarskólanum á lokaári mínu þar og komst inn, það var gríðarlega skemmtileg reynsla og sýn á þessa grein og áhuginn óx bara enn frekar.Ein af myndum Óskars úr ferðalögum æskunnar.

Eftir menntaskóla ákvað ég að taka mér ársfrí fyrir háskólann, á þessu ári tók ég ljósmyndanámið í Iðnskóla Reykjavíkur og fannst það alveg æðislegt. Ég skráði mig í verkfræði árið eftir, en daginn sem umsóknin mín í Massey University var samþykkt var ég fljótur að hætta þessu verkfræðirugli. Leiðin lá þá til Nýja Sjálands í eins árs ljósmyndanámsævintýri.

Hvað fólst í ljósmyndanáminu á Nýja Sjálandi?
Það var auðvitað mikill skóli að vera lengst í burtu frá litla Íslandi og þurfa að standa á eigin fótum. Ljósmyndanámið var skemmtilegt, þetta var lítil deild í stórum háskóla. Góðir kennarar sem voru til í að gefa af sér. Námið var fjölbreytt og skiptist niður í nokkur fög; myndvinnslu, hugmyndavinnslu, tæknikunnáttu, verkleg og bókleg verkefni. Sjálfur hefði ég viljað hafa námið erfiðara og láta gera meiri kröfur til nemandanna. Persónulega var ég þarna til að verja öllum mínum tíma í námið. Maður lærir samt gríðarlega mikið þegar maður er ekki í vinnu og ekki að gera neitt í skólanum nema að stunda ljósmyndun. Maður getur eytt allri sinni orku í eina átt, að verða betri ljósmyndari. Það var alveg ómetanlegt!

Hver var munurinn á náminu í Iðnskólanum og Massey University?
Í raun ótrúlega lítill, þannig séð. Báðir skólarnir eru stórir skólar með litlar ljósmyndadeildir með frábærum kennurum. Svoleiðis nám byggir svolítið á því að maður hafi vit á að soga vitneskjuna frá kennurunum. Maður spjallar eftir tíma, spáir og spekúlerar. Tekur svo þeirra skoðanir og ráð og setur í dýrmætt hólf í kollinum. Skólinn á Nýja Sjálandi var að sjálfsögðu búinn mikið betri aðstöðu, flottari búnaði og mikið fjölbreyttari, hann var svona meiri skóli að öllu leyti. Stærri verkefni, meira heimanám og þess háttar. Hann var mjög rökrétt næsta skref myndi ég segja. En ég kunni mjög vel við þá báða, algjörlega.Allt getur gerst! Lokaverkefnið mitt úr Iðnskólanum átti að túlka einhverja hjátrú. Ég velti þessu fram og til baka og endaði á að gera fyrir og eftir mynd af einhverjum að fara undir stiga.

Hefurðu áhuga á að starfa sem ljósmyndari í framtíðinni?
Já og nei, auðvitað er maður gríðarlega spenntur fyrir því en ég er líka stundum hræddur um að kæfa þennan neista sem ég hef gagnvart ljósmynduninni. Ætli það sé ekki best að segja að ég sé gríðarlega spenntur fyrir því að starfa sem ljósmyndari, í rétta ljósmyndarastarfinu. Ég hef engan áhuga á því að loka mig inni í stúdíói til dæmis að mynda fermingarbörn og snyrtivörur til dæmis. Starfið þyrfti að vera skapandi, fjölbreytt og gefandi, en þá mæti ég líka fyrstur manna og sæki um!

Heilla einhver myndefni þig meira en önnur?
Eins og áður hefur komið fram hef ég mjög gaman af náttúru- og landslagsljósmyndun, einfaldlega af því að hún fléttast saman við önnur áhugamál mín. Ég hef líka mjög gaman af því að mynda fólk í einhverskonar umhverfi, þar sem umhverfið spilar kannski álíka hlutverk og myndefnið sjálft. Að lokum hef ég gríðarlega gaman af því að skapa mínar eigin myndir. Búa til aðstæður eða myndefni út frá einhverju sem ég sé fyrir mér fyrirfram. Oftast reyni ég að nálgast viðfangsefnin aðeins á minn hátt og gera þau að mínum, og þá skiptir í raun engu hvaða myndefni ég er að mynda. Ef mér finnst hugmyndin góð eða bara skemmtileg, þá heillar það.

Í raun get ég sagt að allar tegundir ljósmyndunar geti heillað mig. Ég hef virkilega gaman af því að skoða góðar ljósmyndir, sama hvaða flokki þær tilheyra.

Áttu þér einhvern draumastað, atburð eða fólk sem þú myndir vilja mynda?
Í raun ekki... Ég er með nokkur verkefni í kollinum sem ég vonast til að koma í verk einhvern daginn, en þau eru flest á mjög raunhæfum skala og ekkert sem maður vill vera að auglýsa. Auðvitað getur maður sagt að í hinum fullkomna heimi þætti mér æðislegt að mynda heimsfrægar manneskjur í kjánalegum aðstæðum. Ímyndaðu þér að mynda Dalai Lama á svínsbaki eða Barack Obama sitjandi fastan á ísjaka. En eins og ég segi, þá eru flestir ljósmyndadraumar mínir frekar raunsæir og vonandi get ég bara sýnt ykkur þá í verki síðar meir.

Hversu mikilvæg er myndvinnslan í myndunum þínum?
Mér finnst myndvinnslan gríðarlega mikilvæg, reyndar skil ég ekki alveg hvernig hún gæti ekki verið það. Hlutir eins og að mynd sé örlítið blá (köld) eða örlítið gul (hlý) geta skipt sköpum fyrir hvaða andrúmsloft er í myndinni. Litir, tónar, skerpa, contrast... allt skapar þetta mismunandi andrúmsloft, en það er sennilega það sem ég er oftast að reyna að skapa með vinnslunni, eitthvað andrúmsloft. Ég er samt alls ekki að segja að mynd þurfi að vera gríðarlega mikið unnin, alls ekki. Oft er hægt að skapa akkúrat rétta andrúmsloftð án þess að nokkur taki eftir einhverri vinnslu, en það þarf samt alltaf að vera ljósmyndarinn sem stillir þetta og skapar, það er mun persónulegra heldur en að láta einhverjar “auto” stillingar búa til andrúmsloftið.

Hvað er leyndarmálið á bak við bláu tónana?
Hæ, ég heiti Óskar og ég er tónunarhóra...

Nei veistu, það er hreinlega ekkert leyndarmál við þá. Ég hef mjög gaman af því að tóna myndir og bláu tónarnir heilla mig oft persónulega. Ef ég ætti að gefa eitthvað ráð væri það að vinna myndina bara flotta í svarthvítu fyrst og bæta svo tóninum á, og passa passa passa að hafa hann ekki yfirþyrmandi mikinn, ég held það sé það sem flestir klikka á til að byrja með. Ég sé það allavega í gömlum myndum frá mér!

Eru einhver svið innan ljósmyndunar sem þér finnst að þú þurfir að bæta þig á?
Já, öll! Um leið og þú heldur að þú þurfir ekki að bæta þig þá skaltu bara selja búnaðinn og fara að gera eitthvað allt annað, því þá fyrst er öruggt að þú veist ekkert um ljósmyndun og hefur í raun engan áhuga á henni.

Ég átta mig vel á því að sumar hliðar eru sterkari hjá mér en aðrar, en ef áhuginn liggur aðallega í sterkari hliðunum þá er það bara í lagi og fullkomlega eðlilegt. Það er í raun eðlilegt að spyrja sjálfan sig hvort maður vilji frekar bæta sig á sínum verstu sviðum eða á sínum bestu. Að mynda fólk er til dæmis eitthvað sem ég hef markvisst reynt að bæta mig í. Það er í raun spurning um feimni og þægindaramma, maður þarf að ögra sjálfum sér stundum. Ég til dæmis ákvað að mynda eins mikið af fólki fyrir nýafstaðna Bikarkeppni eins og ég gat. Það var ekkert auðveldasta leiðin fyrirfram, en eftir á er ég gríðarlega ánægður með það. Svoleiðis tökur skilja yfirleitt mest eftir sig.

Svo eru auðvitað svið sem ég kann ekkert á. Second Curtain flash ljósmyndun á tónleikum er eitthvað sem mér hefur aldrei tekist vel upp með og götulífsljósmyndun er á færi meistaranna en ekki mínu. Ég kann ekkert á macro myndatöku og hef lítið myndað sport, kann ekkert að mynda fugla og svo framvegis. Þetta væri ekkert gaman ef maður sæi ekki fram á endalausa möguleika á að bæta sig...

Hvað einkennir góða mynd?
Úff, það geta verið milljón mismunandi atriði. Ég get verð mjög ljóðrænn og talað um að virkilega góðar myndir skilji eitthvað eftir. Þær vekja mann til umhugsunar eða hleypa huganum af stað í eitthvað ferðalag. Myndir sem sýna mér daglega hluti frá nýjum sjónarhornum, fanga hárrétt augnablik eða segja sögu verða allar að teljast góðar. Þegar ljósmyndaranum tekst að túlka myndefnið á sinn eigin hátt, koma til skila tilfinningum eða vekja þær upp teljast myndirnar góðar. Mynd sem fær mig til að brosa er virkilega góð mynd.

Þessi spurning er bara ósanngjörn, það er ekkert hægt að svara henni. Þetta fer mikið eftir tilgangi ljósmyndarinnar myndi ég segja. Ef hún er fyrir keppni hér, þá þarf hún að falla vel að þema og vera tæknilega góð. Ef hún er á sýningu um Indíána, þá þarf myndin að segja mér sögu þeirra. Ef þetta er mynd í fjölskyldualbúminu þá dugar að hún fái mig til að brosa eða rifja upp góða sögu.

Ég held ég endi bara á að svara þessu þannig að góð mynd er ljósmynd sem sinnir tilgangi sínum vel.Hér er mynd sem sinnir hlutverkinu vel fyrir fjölskyldualbúmið. Þetta er tekið í helgarferð á Snæfellsnesinu með stór-tengdafjölskyldunni. Gríðarlega skemmtileg helgi og veðrið lék við okkur síðasta daginn. Helgin í heild sinni rifjast upp fyrir mér við að skoða þessa mynd. Ég efast um að hún þyki svo merkileg fyrir aðra, en fyrir mér segir hún svo margt.Hér er svo önnur gjörólík mynd með allt annan tilgang. Mig langaði að skrásetja þennan frábæra karl sem ég hitti. Hann vinnur á bensínstöð, þeirri persónulegustu sem ég hef séð. Mér fannst hann svo skemmtilegur að mig langaði endilega að reyna að ná einum ramma af honum. Inn á þennan ramma reyndi ég svo að setja smá upplýsingar um hann. Hann býr augljóslega úti á landi, á sveitabæ, hann á hund, hann er vingjarnlegur og það er stutt í brosið. Og svo framvegis... Mér til mikillar skemmtunar hafði afastelpan hans samband við mig því hana langaði að prenta myndina út og gefa afa sínum. Það gladdi mig ótrúlega mikið og sagði mér að myndin sinnti gjörsamlega sínum tilgangi.

Áttu þér einhverjar fyrirmyndir eða uppáhaldsljósmyndara?
Ég hef hrifist af mörgum og litið upp til margra. Henri Cartier-Bresson hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér, sennilega vegna einhverrar snilldar sem einkennir myndirnar hans sem ég er mjög fjarri því að búa yfir. Ég held að ég sé alltaf í skapi til að gleyma mér aðeins yfir Bresson myndum.

Meistari Rax er alltaf í gríðarlegu uppáhaldi, ekki bara vegna ótrúlegra mynda sem hann tekur, heldur líka nálgunar hans á myndefnið. Hann umgengst viðfangsefnið með virðingu, ótrúlegur listamaður sem ég lít gríðarlega upp til. Ég hef aldrei orðið fyrir jafnmiklum áhrifum af ljósmyndum eins og á síðustu sýningu Rax í Gerðarsafni, ótrúleg upplifun alveg hreint!

Gísli Dúa er síðan einn skemmtilegasti ljósmyndari sem ég veit um, magnaður og skuggalega hugmyndaríkur!

The Icelandic Greg Norman!

Óskar í golfi úti í Goðafossi, mynd: Gísli Dúa

Hversu mikilvægt er að kynna sér ljósmyndun annarra?
Mjög! Persónulega finnst mér það að minnsta kosti. Maður sækir alltaf innblástur í verk annarra. Sér hvað virkar og hvað ekki. Áttar sig á mismunandi nálgun á hlutina, mismunandi áherslum og fjölbreytileikanum. Ég held að maður eigi á hættu að festast í sama farinu ef maður er ekki stöðugt með opin augun að horfa í kringum sig. Þá er ég alls ekki að tala um að fylgja einhverjum straumum og stefnum, heldur bara að láta hugann reika, fá hugmyndir og innblástur.

Áttu einhverjar uppáhaldsmyndir eftir þig?
Ég er gæddur þeim kvilla að halda alltaf gríðarlega upp á það sem ég hef unnið að nýlega. Þannig eru flestar Bikarkeppnismyndirnar enn í miklu uppáhaldi. Annars eru hér nokkrar sem ég held upp á:Þessi mynd af byggingarkrana er á sérstökum stalli hjá mér eftir að hafa verið valin “Tímaritamynd ársins” á sýningu Blaðaljósmyndarafélags Íslands. Hún er táknræn fyrir hrunið á margan hátt og endurspeglar samtímann ágætlega að mínu mati. Ég átti samt aldrei von á þessum verðlaunum og finnst þetta gríðarlegur heiður.Uppáhaldsstundir ársins eru meðal annars þær stundir sem maður ver úti í fjárhúsi þegar sauðburður er í fullum gangi. Það er eitthvað svo æðislegt við þessi litlu lömb, svo notalegt og afslappandi. Ég held mikið upp á þessa mynd vegna þeirrar tengingar sem hún gefur mér við þessar dýrmætu stundir.Þennan kríudans myndaði ég úti á Snæfellsnesi. Mér finnst hún stórskemmtileg enda fær hún veggpláss inni í stofu hjá mér. Neikvæða rýmið finnst mér dansa skemmtilega með fimum kríunum sem skera sig vel frá umhverfinu.Þessi mynd er tekin í miðnætursól á Hveravöllum. Íslensk sumur eru þau æðislegustu sem þú finnur í heiminum. Þetta svæði hefur lengi heillað mig og ég stoppa oftast þarna þegar ég renni Kjalveg. En þetta kvöld var alveg einstakt. Sól, logn og 17 gráðu hiti þarna uppi á hálendi Íslands.Aldeyjarfoss er ótrúlega fallegur. Þetta er klárlega staður sem ég á eftir að heimsækja oftar. Ég tók slatta af myndum þarna sem ég held frekar mikið upp á. Magnað svæði sem býður upp á mikið.Útsýni Monu Lisu er akkúrat svona, alla daga! Þar sem allir stóðu og gláptu á málverkið fræga, smelltu af myndum og störðu ákvað ég að fara fremst og mynda það sem Mona Lisa þarf að horfa á alla daga. Þetta var svona dæmi um óhefðbundna nálgun sem mér fannst ganga algjörlega upp og í raun segja okkur mikið meira en ljósmynd af málverkinu.Afi og Styrmir frændi voru heldur betur tilbúnir að leyfa mér að smella einni mynd af þeim við leik og störf í fjárhúsinu. Þessi mynd er gríðarlega einkennandi fyrir þá báða og eðlileg. Með þeim á myndinni er hrúturinn Óskar sem eflaust bragðaðist gríðarlega vel grillaður sumarið eftir.Grjótagjá er magnaður staður sem ég hef skoðað tvisvar sinnum og ætla pottþétt að skoða oftar. Mér finnst alltaf gaman þegar mér tekst að mynda svæði sem ná einhverjum sparisess. Þegar mér tekst að mynda þau eins og ég sé þau, eins og ég upplifi þau. Mér fannst það heppnast vel í þetta skipti og sennilega þess vegna sem ég held svona upp á þessa mynd.Landmannalaugar minntu á vissan hátt á paradís þarna. Iðagræn túnin úti í stórbrotinni náttúrunni. Magnað landssvæði og myndin góð minning frá frábærum degi. Það sem lítur út fyrir að vera mynd af náttúru fyrir einum getur nefnilega svo auðveldlega verið mynd af minningu fyrir öðrum. Það á við í þessu tilfelli.Íslandshverinn í Námaskarði finnst mér alveg æði. Ég veit því miður ekki hvað þessi hver heitir en hann er í laginu alveg eins og Ísland.Allir þurfa sitt bensín. Þessi mynd er alltaf ofarlega á uppáhaldslistanum hjá mér, ekki síst vegna þess hvað takan sjálf var skemmtileg. Þetta er tekið um kvöldmatarleytið á bensínstöð við hliðina á skyndibitastað. Það var óborganlegt að fylgjast með svipnum á fólki sem var í röðinni við bílalúguna, þegar það fylgdist með okkur þarna, öðrum með myndavél og stúdíóljós og hinum á hestbaki við bensíndælu. Yndislega klikkuð hugmynd sem hreinlega varð að framkvæma fyrst hún varð til.

En eftir aðra?
Magnið er óendanlegt, gjörsamlega! Það er samt alltaf ein mynd sem kemur upp í hugann þegar ég er spurður að þessu. Bresson mynd sem sýnir hvað hann var gríðarlega vakandi fyrir umhverfi sínu. Mómentið er fullkomið, takið eftir veggspjaldinu í bakgrunni. Þetta er aðeins of mikil snilld!Eitt verkanna í Andlitum aldanna eftir Rax hefur mig einna helst langað í upp á vegg. Ég gæti horft á það dögum saman, án þess að gera neitt annað! Þeir sem hafa ekki upplifað sýninguna geta hreinlega ekki skilið hvað ég á við, því miður.

Svarthvítu dýralífsmyndirnar hans Nick Brandt eru með því allra flottasta sem ég hef séð, ég fæ gæsahúð í hvert skipti sem ég skoða þær!
http://www.nickbrandt.com/

Hversu lengi hefur þú verið notandi á vefnum?
Ég hef verið mjög virkur notandi frá stofnun hans. Fyrstu árin var ég í stjórn sem var virkilega skemmtilegt og gefandi. Það var hins vegar mikil vinna og þegar ég flutti af landinu ákvað ég að segja mig úr henni. Vefurinn hefur breyst talsvert á þessum tíma. Til að byrja með þekktu flestir flesta, en núna eru yfir 10 þúsund manns skráðir hér!

Hefur breytingin verið til hins betra eða verra?
Mér finnst hún til hins verra. Fólk leggur meira í svör og gagnrýni gagnvart notendum sem það þekkir eða kannast við. Það fyndna er að þrátt fyrir þennan gífurlega fjölda sem stundar síðuna, eru ekkert mikið fleiri myndir í keppnum eða fleiri gagnrýnispóstar á hverja mynd, þannig að fjölgunin skilar sér í raun ekki til manns sem notanda.

Hvernig vinnur maður keppnir á LMK?
Góð spurning með einföldu svari... með metnaði. Þú þarft að nenna og vilja, vera til í að leggja eitthvað á þig og falast eftir aðstoð þegar hennar er þörf. Restin kemur bara með æfingunni.

Að halda sig vel innan þemans hjálpar oft til, en frumlegar útfærslur geta líka skorað hátt. Góð hugmynd sem passar inn í þemað er það sem þú ert að sækjast eftir. Vissulega þurfa tæknileg atriði að vera nokkuð rétt; lýsing, litir og annað. En það sem á endanum skilar gullinu er að kjósendur sjái að þú nenntir að hafa fyrir myndinni. Að þú lagðir eitthvað á þig. Kjósandinn þarf bara að sjá metnað...Hérna er gott dæmi um mynd sem sigraði í keppni hér aðallega vegna þess hvað var í hana lagt held ég. Hún er alls ekkert fullkomin, en hugmyndin er fín. Það er búið að hafa fyrir því að redda módeli, greiða því, keyra út í sveit og komast í hænsnakofa. Ég reyndar fékk líka lánaða gleiðlinsu til að þetta gengi upp. Þetta skilar sér held ég allt heim í stofu til þeirra sem skoða myndina.

Er vefurinn enn hjálplegur?
Tvímælalaust! Maður þarf bara að loka augunum fyrir smá tuði og veseni sem alltaf er til staðar og þá situr eftir hellingur af gulli. Mér finnst gott að henda myndum hér í gagnrýni og fá mismunandi álit á þeim. Það opnar augu manns fyrir einhverju sem maður sér ekki sjálfur. Það eru margar skemmtilegar pælingar ræddar hérna og margir áhugaverðir þræðir stofnaðir. Fólk mætti vera duglegra að útbúa greinar. Þessi viðtöl til dæmis vekja alltaf mikla kátínu hjá mér sem og allir þræðir þar sem fólk ákveður að gefa eitthvað af sér.

Ef mann vantar aðstoð, leiðbeiningar eða vitneskju stendur aldrei á svörum. Fjölbreytnin hérna finnst mér æðisleg. Þræðir geta snúist um rökræður, aðstoð, pælingar, gagnrýni, að vera fyndnir eða hvað sem er. Allir eiga sér vettvang hér og það finnst mér frábært.

Hvað felst í góðri gagnrýni?
Hreinskilni. Mér finnst rosalega gaman að heyra hvað fólki finnst um myndirnar mínar, sérstaklega þegar ég heyri að álitið kemur beint frá hjartanu. Síðan þarf bara örlítið að útskýra álitið. Ef þér finnst eitthvað ákveðið atriði vera gott eða slæmt, bentu þá á það sérstaklega. Segðu bara það sem þér finnst, eins ítarlega og þú getur útskýrt eigin skoðun. Það skiptir engu máli hvort þú kannt að taka myndir eða ekki, það kunna allir að horfa og allir hafa álit.

Hvaða breytingar vilt þú sjá á vefnum?
Ég er ekkert viss um að ég hætti ef ég kemst á flug í að svara þessari spurningu. Þegar síðan var stofnuð var hún keyrð í gang með bráðabirgðaútliti og sem minnstri forritunarvinnu. Hún er ennþá eins og fáránlega fornaldarleg að mínu mati. Mér finnst ótrúlegt að geta ekki skoðað hæstu meðaltöl notenda eða hæstu myndir sem hafa komið fram í keppnum. Öll slík tölfræði er eitthvað sem ég hef grátbeðið um frá því síðan fór í loftið. Það þarf bara að passa að flækja hlutina ekkert um of, en endilega hressa upp á þetta allt saman. Hvað vefsamfélagið hér varðar, þá mættu oft fleiri innlegg fara í gagnrýnisþræði frekar en rifrildi og rökræður. Ég sakna líka allra þessara góðu og skemmtilegu ljósmyndaferða sem einkenndu vefinn í upphafi.

Áttu einhver heilræði fyrir byrjendur?
Nokkurn veginn þau sömu og fyrir byrjendur á öllum sviðum; æfa sig, æfa sig og æfa sig meira. Ég mæli með því að kynna sér grunninn vel, svo hægt sé að byggja á honum. Hlusta á öll ráð, hika aldrei við að spyrja “heimskulegra” spurninga og að lokum að æfa sig enn meira.
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst Heimsækja heimasíðu sendanda
ArnarBergur


Skráður þann: 08 Feb 2009
Innlegg: 7515
Staðsetning: Reykjavík
The Sexy thing - 6D
InnleggInnlegg: 09 Jún 2011 - 23:57:36    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Gott

flott viðtal Very Happy
_________________
Myndasmiður
www.facebook.com/abmyndir
www.flickr.com/arnarbg
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst MSN-skilaboð
Rookie


Skráður þann: 01 Jún 2008
Innlegg: 435

Endar á N
InnleggInnlegg: 10 Jún 2011 - 0:08:59    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Frábært viðtal við snilldar myndasmið og skemmtilegan og jákvæðan strák Very Happy Og rosalega er ég sammála þér Óskar með myndirnar hans Brandt...algjört gull! Wink
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda
RonniHauks


Skráður þann: 06 Júl 2008
Innlegg: 1590
Staðsetning: Sunnan jökla.
Olympus E-3
InnleggInnlegg: 10 Jún 2011 - 0:44:37    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Hver er þessi Óskar? Shocked
_________________
http://www.flickr.com/photos/ronnihauks/
http://theauroraphotoguide.com/
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst Heimsækja heimasíðu sendanda
Micaya


Skráður þann: 17 Des 2009
Innlegg: 5015


InnleggInnlegg: 10 Jún 2011 - 1:31:48    Efni innleggs: Svara með tilvísun

StórglæsilegtSmile
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst
bjornae


Skráður þann: 31 Jan 2006
Innlegg: 2238
Staðsetning: Búðardalur
Canon EOS 1D Mark III
InnleggInnlegg: 10 Jún 2011 - 8:49:42    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Frábært
Very Happy
_________________
Björn A Einarsson

Það sem ekki drepur mann, styrkir mann

http://www.flickr.com/photos/baeinarsson
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda
Ibbisaeli


Skráður þann: 17 Sep 2007
Innlegg: 385
Staðsetning: Viborg
Canon 5D
InnleggInnlegg: 10 Jún 2011 - 8:51:30    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Skemmtilegt og fróðlegt viðtal
_________________
Þetta er bara mín skoðun en ekki heilagur sannleikur
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda
Röggi H


Skráður þann: 27 Jan 2007
Innlegg: 2992
Staðsetning: Hafnarfjörður
Fuji X-Pro 2
InnleggInnlegg: 10 Jún 2011 - 10:08:21    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Frábært ég er buinn að halda upp á óskar i svolitin tima það er alltaf gaman að sjá verkinn hans
_________________
Photography is the life and the Life is a Photography
http://www.flickr.com/photos/rhelgason
http://500px.com/rhelgason
Ekki taka skrifum mínum sem fullirðingu ég er bara að spjalla á spjallinu
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst Heimsækja heimasíðu sendanda
HjaltiVignis


Skráður þann: 09 Ágú 2007
Innlegg: 1515

Canon EOS-1Ds Mark II
InnleggInnlegg: 10 Jún 2011 - 10:16:19    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Stórskemmtilegt og fróðlegt við tal, vel gert.
_________________
Hjalti Vignis Flickr
HjaltiVignis
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst
Odinn


Skráður þann: 07 Jan 2007
Innlegg: 79


InnleggInnlegg: 10 Jún 2011 - 11:13:27    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Skemmtileg lesning
_________________
http://500px.com/Odinn
http://www.fluidr.com/photos/2odinn
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda
skipio


Skráður þann: 14 Des 2004
Innlegg: 4972

Ricoh GRD
InnleggInnlegg: 10 Jún 2011 - 11:15:21    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Svakalega er gaman að sjá hér viðtal við Óskar snilling! Flott framtak hjá Danna.
_________________
Að horfa á eitthvað er gjörólíkt því að sjá það.“ - Oscar Wilde
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst Heimsækja heimasíðu sendanda MSN-skilaboð
LalliSig


Skráður þann: 14 Des 2004
Innlegg: 625


InnleggInnlegg: 10 Jún 2011 - 11:21:30    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Fínt viðtal, flott framtak Daníel!
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda
Ottó


Skráður þann: 10 Ágú 2007
Innlegg: 1556
Staðsetning: Hafnarfjörður
Canon 6D
InnleggInnlegg: 10 Jún 2011 - 13:04:31    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Stórskemmtilegt viðtal.
_________________
http://www.flickr.com/photos/25357545@N07/
http://vimeo.com/user5582028
http://500px.com/ottomrlee
https://www.facebook.com/OttoMrLee
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda
OscarBjarna


Skráður þann: 02 Jún 2008
Innlegg: 602

Canon 5D Mark III
InnleggInnlegg: 10 Jún 2011 - 13:27:56    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Gott
_________________
Oscar Bjarna. // http://www.oscarbjarna.is // http://facebook.com/oscarbjarna
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda MSN-skilaboð
raggos


Skráður þann: 01 Feb 2009
Innlegg: 605
Staðsetning: Kópavogur
....
InnleggInnlegg: 10 Jún 2011 - 13:37:50    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Skemmtilegt viðtal við topp ljósmyndara. Ég er búinn að læra mikið af Óskari frá því ég byrjaði að fylgjast með hér.
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda
Sýna innlegg frá síðasta:   
Senda inn nýjan spjallþráð   Senda svar á spjallþráð    Forsíða -> Umræður -> Greinar Allir tímar eru GMT
Fara á blaðsíðu 1, 2, 3  Næsta
Blaðsíða 1 af 3

 
Fara til:  
Þú getur ekki sent inn nýja spjallþræði á þessar umræður
Þú getur ekki svarað spjallþráðum á þessum umræðum
Þú getur ekki breytt innleggi þínu á þessum umræðum
Þú getur ekki eytt innleggjum þínum á þessum umræðum
Þú getur ekki tekið þátt í kosningum á þessum umræðum


Powered by phpBB © 2001, 2005 phpBB Group