Sjá spjallþráð - Viðtal: Karl Gunnarsson (karlg) :: www.ljosmyndakeppni.is
InnskráningInnskráning
Viðtal: Karl Gunnarsson (karlg)
Fara á blaðsíðu 1, 2  Næsta
 
Senda inn nýjan spjallþráð   Senda svar á spjallþráð    Forsíða -> Umræður -> Greinar
Sjá síðustu spjallþræði :: Sjá næstu spjallþræði  
Höfundur Skilaboð
Daníel Starrason


Skráður þann: 18 Apr 2006
Innlegg: 6369

Canon EOS 5D Mark-III
InnleggInnlegg: 19 Des 2010 - 21:46:56    Efni innleggs: Viðtal: Karl Gunnarsson (karlg) Svara með tilvísun

Karl Gunnarsson hefur undanfarið vakið athygli hér á vefnum fyrir myndirnar sínar. Myndirnar eru oftar en ekki umdeildar og flestir sammála um það að Kalli sé með stíl sem er öðrum ólíkur, allavega í okkar stórfurðulega LMK samfélagi.

Ég og Völundur gerðum tilraun til að skyggnast aðeins undir yfirborðið og úr varð stutt viðtal við kauða.


What Did You Do For Towel Day 2008?

Hver ertu?
Karl Gunnarsson. 37 ára, fæddur í Reykjavík, uppalinn á Akureyri (svo langt sem það nær) og nú búsettur í Falun í Svíþjóð síðan 2008.

Hvað ertu að brasa í Svíþjóð?
Ég kynntist sænskri konu og það gekk bara ekki lengur að vera alltaf að fljúga svona á milli svo ég flutti. Þá hafði ég verið að brasa við BA ritgerð í sagnfræði sem mér fannst svakalega sniðug en mér gekk ekkert með. Hér í Svíþjóð var hins vegar, og er, mjög erfitt um vinnu og sérstaklega ef maður hefur enga menntun; ólíkt því Íslandi sem ég flutti frá. Þess vegna er ég núna í miðjum sjö mánaða kúrs á menntaskólastigi til að fá réttindi til að keyra vöruflutningabíl að atvinnu.

Främbyvägen, Falun 2010
Främbyvägen, Falun 2010

Afhverju tekurðu ljósmyndir?
Að hluta til er það líklega ferlið við að ljósmynda; uppgötva eða sjá, finna nálgun á viðfangsefnið og svo reyna að búa til ljósmynd. Það að fara í gegnum myndirnar mínar og ákveða hvað virkar og hvað ekki er lærdómsríkt og bæði fyrir og eftir að maður smellir af er maður að læra að sjá heiminn á annan hátt. Ég er miklu meðvitaðri um umhverfi mitt eftir að ég fór að sjá það sem myndefni og ég sé það öðruvísi núna. Svo er það líka hvernig maður fer að fá hugmyndir um hvað maður vill fá út úr ferlinu og þessi slagur við að ná því fram. Kannski veit ég hverju ég vil ná fram en leiðin að markmiðinu getur verið algerlega hulin mér. Ljósmyndun er þannig að vissu leyti problem solving sem mér finnst gaman að sökkva mér í. Á endanum er svo bara ánægjulegt að búa eitthvað til sem kemur af ferli sem maður nýtur. Annars get ég ekki látið vera að vitna í Garry Winogrand sem átti miklu betra, og miklu styttra, svar við þessari spurningu: „I photograph to find out what something will look like photographed.“ Stundum finnst mér þetta líka eiga ágætlega við mig.

Nýtist sagnfræðimenntunin í ljósmyndun?
Fyrir aðra kannski en ég hef ekki tekið eftir því í mínu tilfelli. Reyndar var samt aðeins komið inn á túlkun ljósmynda í einum kúrs sem ég tók. Mér dettur hins vegar í hug að kannski myndi þekking á ljósmyndun geta verið ansi gagnleg fyrir sagnfræðinga.

Fängelsebacken, Falun 2010
Fängelsebacken, Falun 2010

Er útkoman alltaf í samræmi við það sem þú hafðir í huga í upphafi?
Auðvitað ekki Smile Lýsingargeta myndavélarinnar (og ég þarf eiginlega að biðjast afsökunar á að nota þetta hugtak en það verður bara að vera með hér) er oft meiri en ég ræð við að ráða úr í gegnum finderinn. Stundum smellur þetta, stundum skiptir munurinn ekki máli og stundum kemur hann þægilega á óvart. Og þá er ég bara að tala um myndirnar sem komast alla leið í gegnum ferlið. Með aðrar myndir er þetta svo upp og ofan eins og við má búast.

Áttu þér önnur áhugamál en ljósmyndun?
Ég held að ljósmyndun hafi ýtt flestum öðrum áhugamálum mínum til hliðar. Græjuhliðin á ljósmyndun er að vissu leyti skemmtileg hliðarverkun því áður var ég með bíladellu svo myndavéladella var ágætis níkótínplástur á hana. Það skaðar ekki að þessi græjudella getur verið tiltölulega ódýr líka. Ólíkt bíladellunni. Það er margt sem ég hef gaman að og hef áhuga á en ekkert af því er mér áhugamál á sama hátt og ljósmyndun er það.

Drottninggatan, Uppsala 2010
Drottninggatan, Uppsala 2010

Hefurðu spáð í að gera ljósmyndun að atvinnu?
Auðvitað hef ég hugsað um það en aldrei lengi í einu. Ég þyrfti að tileinka mér ansi margt til að geta orðið atvinnuljósmyndari að einhverju viti, bæði hvað varðar ljósmyndatækni og viðskiptavit, og líkurnar eru að á endanum væri ég ekki að gera það sem mig langaði til að gera hvort eð er.

Hvaða græjur notarðu?
Ég keypti mér Nikon D40 með 18-55 kitt linsu fyrir þremur árum síðan. Það var upphafið að ljósmyndaáhuganum og þessi vél er enn sú sem ég nota mest. 18-55 linsuna gaf ég frá mér og í staðinn hef ég lítinn haug af Nikon linsum sem eru frá um það bil 40 til 25 ára og eina nútíma Sigma 30mm f/1.4. Það er linsan sem ég nota megnið af tímanum. Þess fyrir utan hef ég dútlað mér með 35mm rangefinder (og viewfinder) myndavélar en eina sem virkar orðið af þeim er Zorki-4 vélin mín. Eða ég held hún virki því ég á enn eftir að ná í hana úr viðgerð. Annars hef ég orðið frekar lítil not fyrir smáformats filmuvélar yfirleitt nema vélin búi yfir einhverjum sérstökum eiginleikum. Aftur á móti er ég þeim mun hrifnari af medium format og nota alltaf öðru hvoru Minolta Autocord 6x6 TLR vél. Ferkantaða formið hefur virkað vel fyrir mig og ég vil nota það meira. Já, og ég set venjulega Kodak Portra 400NC í Autocordinn; ég vinn varla í svart/hvítu lengur. Ég skanna í aðstöðu ljósmyndaklúbbsins míns og er eins og belja á svelli með það vinnuferli allt – ég vil betri græjur og hugbúnað í þetta en fyrst og fremst þarf ég að læra betur á vinnuferlið. Ég myndi líklega glaður frekar taka myndir stafrænt en myndavélin sem ég horfi í gegnum skiptir mig líka máli. Svo endar allt venjulega í Makkanum mínum og í Lightroom. Tölvan og hugbúnaðurinn eru mikilvægar græjur.

Hver er draumagræjan?
Ætli það sé ekki einfaldast að segja að einmitt núna stefni ég á að fá mér Panasonic GF1 myndavél. Mig langar í góða vél, eða eins góða og ég hef möguleika á, sem er léttara að hafa með sér en D40. Einhvern tímann verð ég samt að prófa stórformat svo að einhver 4x5 field camera er ákveðinn draumur líka. Svona meðal annars.

Nybrogatan, Falun 2010
Nybrogatan, Falun 2010

Er myndvinnslan mikilvæg, verðu miklum tíma í hana?
Myndvinnsla er gríðarlega mikilvæg. Hún getur haft svo mikil áhrif á hvernig fólk skynjar myndina og ég held maður þurfi að vera meðvitaður um hvaða áhrif myndvinnslan hefur og hvaða hughrif hún vekur. Hins vegar vinn ég myndirnar mínar almennt frekar hóflega – ég hef eiginlega ekki áhuga á að búa til annað en „straight photography“. Það þýðir hins vegar ekki að það það geti ekki farið þó nokkur tími í einstaka mynd ef til dæmis ljósið var erfitt. Ég hef ekki samanburð við aðra ljósmyndara en mér finnst ég ekki eyða miklum tíma í að vinna hverja mynd fyrir sig nema kannski þegar ég prenta þær. Svo finnst mér bara svo gaman að fara í gegnum myndirnar og vinsa úr þær sem mér líkar, vinna þær og hlaða upp á Flickr. Mér líður best þegar ég hef nokkur hundruð myndir sem ég þarf að vinna mig í gegnum.

Ertu með mikið óunnið á skjáborðinu núna?
Einmitt þegar þetta er skrifað á ég ekki einu sinni skjáborð. Ég kom heim frá Íslandi í lok nóvember með ónýta fartölvu og er núna að bíða eftir að heyra frá tryggingunum og leita mér að annarri. Ég hafði náð að „fullvinna“ fimm myndir frá Íslandi meðan ég var þar og ætti að hafa eitthvað fleiri þaðan og svo var eitthvað smotterí óunnið frá því áður en ég fór út. Svo verður þetta spurning um hve lengi ég verð án tölvu og hve duglegur ég verð að taka myndir í skammdeginu á meðan.

Klara norra kyrkogata, Stockholm 2010
Klara norra kyrkogatan, Stockholm 2010

Hvernig er góð ljósmynd?
Ég held ekki að það séu nein ákveðin atriði sem þurfa að vera til staðar (eða fjarverandi) til að ljósmynd sé góð. Mér líkar samt ákaflega vel við þegar margræðni miðilsins nýtur sýn í ljósmyndum svo að venjulega er ég hrifinn af því þegar ljósmyndir vekja upp spurningar og fá mig til að hugsa.


Skara 1990 eftir Lars Tunbjörk

Reykjavík 2010
Reykjavík 2010

Skoðaru myndir eftir aðra?
Á hverjum degi svo að segja. Ég reyni alltaf að hafa ljósmyndabækur í láni frá bókasafninu og ég er sífellt að fínpússa Flickr tenglalistann mitt til að straumurinn af myndum sem Flickr sýnir mér sé sem áhugaverðastur. Það er nánast bókað núna að á hverjum degi sjái ég jafnvel nokkrar mjög góðar eða áhugaverðar myndir frá Flickr tenglunum mínum. Svo kíki ég alltaf öðru hvoru á myndir á Ljósmyndakeppni og þá helst á gagnrýniþræðina. Það er ótrúlega hollt fyrir mann að gagnrýna myndir því þá þarf maður að koma því sem maður hugsar í orð. Svo er líka bara gaman að fylgjast með því hvernig sumir notendur uppgötva sinn eigin stíl og taka framförum.

Falu järnvägsstation, 2010
Falu järnvägsstation, 2010

Færðu góða gagnrýni á ljósmyndakeppni?
Aðallega fæ ég ekki mjög oft gagnrýni sem skiptir mig máli. Vitanlega hefur fólk skiptar skoðanir á hvað er góð gagnrýni en ég hef oftast lítinn áhuga á gagnrýni sem snýst um ljósmyndatækni, í þröngum skilningi þess orðs, eða hvernig hefði átt að gera mynd öðruvísi.

Hvað felst í góðri gagnrýni?
Mér finnst að ljósmyndagagnrýni eigi að fjalla um myndina sem er til gagnrýni eins og hún er þótt auðvitað megi fylgja með ábendingar um hvaða áhrif það hefði að gera hlutina öðruvísi. Góð gagnrýni útskýrir hví gagnrýnandanum finnst það sem honum finnst um myndina. „Góð mynd!“ eða „Léleg mynd!“ er ekki mikið til að læra af en ef forsendur fyrir skoðununum fylgja fær maður eitthvað til að vinna með. Mér finnst oft að góð gagnrýni sé eitthvað sem maður lærir af sama hvort maður er sammála niðurstöðu hennar eða ekki.

Gamla Scania in Främby, Falun 2010
Gamla Scania í Främby, Falun 2010

Áttu þér fyrirmyndir í ljósmyndun?
Helstu fyrirmyndirnar mínar eru líka uppáhaldsljósmyndararnir mínir. Ég hef endalausa aðdáun á franska ljósmyndaranum Eugène Atget og það er mér líka viss huggun að Atget gerðist ljósmyndari á líkum aldri og ég var á þegar ég fékk áhugann. Af öðrum er Alec Soth helstur. Hann nær bæði að taka landslagsmyndir sem minna á new topographics og portrettmyndir sem smjúga fram hjá hvaða fordómum sem ég hefði kannski annars fundið fyrir gagnvart fólkinu sem hann tekur myndir af. Ég hef ákaflega lítið fiktað við portrett en Alec Soth er ein stærsta ástæðan fyrir því að mig langar til að prófa að gera portrett. Svo get ég ekki sleppt því að nefna Garry Winogrand. Þrátt fyrir að ég sé svo gott sem hættur street photography þá hefur viðhorf hans til ljósmyndunar, og það sem hann hefur sagt og gert, enn mikil áhrif á mig.

Hvað eru new topographics?
New Topographics: Photographs of a Man-Altered Landscape var ljósmyndasýning sem var haldin í George Eastman House árið 1975. Ég held hún hafi ekki vakið neina almenna hrifningu þá en reyndist með áhrifameiri ljósmyndasýningum sem haldnar hafa verið. Nýlega kom út mjög vönduð bók með myndunum sem voru á sýningunni og ritgerðum um hana sem leiddi til að þó nokkuð hefur verið skrifað um sýninguna og bókina nýlega.

Lestu mikið um ljósmyndun?
Því miður er RSS listinn minn af ljósmyndabloggum allt of þéttsetinn og því þori ég ekki að opna hann lengur. Hins vegar les ég The Online Photographer á hverjum degi og fæ oft ábendingar frá ljósmyndurum sem ég þekki um eitthvað áhugavert að lesa á vefnum. Eins og ég sagði reyni ég svo að „lesa“ mikið af ljósmyndabókum en ég þyrfti líka að finna mér meira af bókum sem fjalla um eðli ljósmyndunar.

Hver er efniviðurinn í ljósmyndunum þínum?
Hvað sem vekur athygli mína og ég held að geti verið efni í áhugaverða ljósmynd.

Silverstigen, Falun 2010
Silverstigen, Falun 2010

Hvert er markmiðið með myndunum?
Það er spurning hvort tilvitnunin í Winogrand hér að ofan eigi ekki jafnvel betur við í svari við þessari spurningu. Ég tek myndir af hlutum sem vekja áhuga minn og ég vil sjá hvort ég get einhvern veginn komið því sem mér finnst áhugavert til skila með ljósmynd. Til dæmis með því að reyna að vekja upp sense of place í myndinni. En ljósmynd er líka mitt edit á raunveruleikanum og jafnvel þótt ég sé algerlega forpokaður straight ljósmyndari. Ljósmynd sýnir bara eitt augnablik (með undantekningum) og þrátt fyrir að hafa magnaða getu til að lýsa viðfangsefninu (og öllu í kringum það) er það allt tekið úr samhengi þegar við setjum rammann utan um með myndavélinni. Ég held að þetta leiði mig samt allt á byrjunarreit; ég tek myndir til að taka myndir.

Hvaða lausnir hefuru til að búa til tilfinningu fyrir staðnum?
Það er spurning sem ég hef varla hugsað um meðvitað. Ef ég hugsa um myndir sem vekja upp svona sense of place fyrir mér þá held ég að þær séu oft teknar þannig að myndefnið sé staðurinn. En ég veit ekki hve langt það nær og efast um að það sé nauðsynlegt heldur. Mér dettur líka í hug að oft er staðurinn afmarkaður innan myndflatarins. Kannski gefur það manni tilfinningu fyrir að vera umlukin staðnum en þar á móti kemur að mér finnst myndir Alec Soth af Niagarafossunum gefa mér sterkt sense of place og þetta atriði á alls ekki við í þeim og jafnvel ekki fyrra atriðið heldur. Þetta er örugglega mun erfiðara að nálgast og hefur með samspil, og kannski jafnvel eðli, hluta í myndinni að gera, sjónarhorn og fleira.

Timmervägen, Falun 2010
Timmervägen, Falun 2010

Með hvaða hugarfari nálgastu myndefnið?
Áhuga fyrst og fremst. Ég hef lítið tekið myndir af fólki upp á síðkastið en oftast þegar maður tekur myndir af fólki finnst mér virðing fyrir viðfangsefninu vera mikilvæg. Þar sem ég tek meira myndir af því sem fólk skilur eftir sig er virðing fyrir myndefninu eitthvað sem ég þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af oftast. Vonandi er það eitthvað sem ég þarf að fara að hugsa um meira í framtíðinni.

Á virðingin við þegar maður myndar byggingar og bíla? Eða þessvegna landslag?
Ég á ákaflega erfitt með að ímynda mér að það eigi við eða í það minnsta ekki á sama hátt og þegar maður tekur myndir af fólki.

Faluån, 2009
Faluån, Falun 2009

Viltu vera öðruvísi?
Það er ekkert markmið í sjálfu sér. Mig langar til að búa til myndir sem nálgast þær hugmyndir sem ég velkist með um notkun á miðlinum og læra að skilja miðilinn betur í gegnum ljósmyndirnar sem ég tek. Ef útkoman úr því er „öðruvísi“ er það bara ágætt. Ég er hins vegar ákaflega meðvitaður um hverjir hafa haft áhrif á mig og hvaða mark það setur á myndirnar mínar. Mér finnst ég ekki vera neitt sérstaklega frumlegur eða öðruvísi þótt ég sé kannski að gera hluti sem eru ólíkir því sem margir í kringum mig gera. Mér þætti hins vegar gaman ef ég gæti skapað mér eigin stíl að einhverju marki. Hve öðruvísi það myndi gera mig er svo annað mál.

Hefur ljósmyndakeppni.is hjálpað þér?
Ég lærði ansi margt af Ljósmyndakeppni þegar ég var að byrja. Ljósmyndakeppni er líka ennþá eini staðurinn sem ég tek þátt í gagnrýnisþráðum og eins ég sagði finnst mér það geta verið mjög lærdómsríkt.


Kålgårn', 2010 Falun
Kålgårn’, Falun 2010

Hvaða ráð geturðu gefið byrjendum sem eru að feta sín fyrstu spor?
Ég held það sé ákaflega erfitt að gefa fólki ráð blindandi. Fólk hefur svo mismunandi markmið með sinni ljósmyndun. Gott ráð væri samt að láta það sem virkar eins og hranaleg svör á vefnum ekki virka letjandi. Stundum eru þau í alvörunni hranaleg en stundum virka þau bara þannig á vefnum. Leitarvélar eru lykill að gríðarlegum fróðleik og ég held að ég hafi sjálfur lært megnið af grunnatriðunum í gegnum Wikipedia. Ekki þar fyrir að maður þurfi endilega að kunna þau; ef maður er ánægður með útkomuna án þess að kunna þau er það bara hið besta mál. Hins vegar hef ég litla trú á að margir verði meistarar ljósmyndunar í tómarúmi; skoðið ljósmyndir annarra, og ekki bara það sem er á Flickr og LMK. Ef þú hefur djúpan áhuga á öllu sem viðkemur ljósmyndun mæli ég sterklega með að nálgast History of Photography Podcast en það er ein allra besta uppsprettan af ljósmyndatengdri vitneskju og fróðleik á vefnum. Já, og lesið smá Szarkowski Smile

Gjutargatan, Borlänge 2010
Gjutargatan, Borlänge 2010

Karl Gunnarsson á Flickr

Við viljum þakka Kalla fyrir viðtalið og um leið hvetja notendur til að nota tækifærið og koma með fleiri spurningar!
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst Heimsækja heimasíðu sendanda
Tryptophan


Skráður þann: 23 Apr 2007
Innlegg: 4777
Staðsetning: fjær en capa
webcam 2,0mpx
InnleggInnlegg: 19 Des 2010 - 22:12:29    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Snilld. :- )
_________________
kv. W
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst MSN-skilaboð
hallgrg


Skráður þann: 22 Apr 2008
Innlegg: 3368
Staðsetning: Hafnarfjörður
Fujifilm X100S
InnleggInnlegg: 19 Des 2010 - 22:27:32    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Gott
_________________
...Mainstream is not it...
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda
einhar


Skráður þann: 17 Ágú 2005
Innlegg: 5372
Staðsetning: Á milli Selkóps
Cnn
InnleggInnlegg: 19 Des 2010 - 22:30:42    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Skemmtilegt og fróðlegt Gott
_________________
Dagskot Rodors

Siððan wæs rodor áræred and ryne tungla, folde gefæstnad - Síðan var himinn settur upp svo og gangur tungls, jörð var sett föst
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda
Sergio


Skráður þann: 04 Nóv 2006
Innlegg: 2044

Canon EOS 5D Mark II
InnleggInnlegg: 19 Des 2010 - 22:36:09    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Karl er nu meiri karakter! flott þetta Gott
_________________
Flickr
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda MSN-skilaboð
zepplinn
Umræðuráð


Skráður þann: 29 Jan 2008
Innlegg: 2249
Staðsetning: Reykjavík
Canon 450 D
InnleggInnlegg: 19 Des 2010 - 22:52:52    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Nokkuð gott. Gaman af svona greinum.
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst Heimsækja heimasíðu sendanda MSN-skilaboð
garrinn


Skráður þann: 06 Jan 2008
Innlegg: 3619
Staðsetning: Akureyri
Canon EOS 5D
InnleggInnlegg: 19 Des 2010 - 23:05:12    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Virkilega sniðugt framtak hjá ykkur (norðan) félagar og góð grein.

Sakna samt smá í greininni eins og umræðu um eina mynd hjá Karli. Þar sem þið munduð diskutera með honum túlkun á henni, bæði ykkar og svo hans til samanburðar..
_________________
Canon EOS 5D, 1D MKIIn
Myndir stórar - PAD Garrinn
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda
Daníel Starrason


Skráður þann: 18 Apr 2006
Innlegg: 6369

Canon EOS 5D Mark-III
InnleggInnlegg: 19 Des 2010 - 23:09:19    Efni innleggs: Svara með tilvísun

garrinn skrifaði:
Virkilega sniðugt framtak hjá ykkur (norðan) félagar og góð grein.

Sakna samt smá í greininni eins og umræðu um eina mynd hjá Karli. Þar sem þið munduð diskutera með honum túlkun á henni, bæði ykkar og svo hans til samanburðar..


Þetta væri skemmtileg viðbót, veldu mynd og við skulum diskútera!
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst Heimsækja heimasíðu sendanda
steingr


Skráður þann: 10 Mar 2009
Innlegg: 536


InnleggInnlegg: 19 Des 2010 - 23:16:26    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Frábært framtak og skemmtilegar myndir hjá Karli.
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda
garrinn


Skráður þann: 06 Jan 2008
Innlegg: 3619
Staðsetning: Akureyri
Canon EOS 5D
InnleggInnlegg: 19 Des 2010 - 23:17:57    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Þessi mynd heillaði mig strax..Hefði verið gaman að fá smá greinagerð með þessari mynd frá Karli.
_________________
Canon EOS 5D, 1D MKIIn
Myndir stórar - PAD Garrinn
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda
Hauxon


Skráður þann: 07 Des 2005
Innlegg: 6372
Staðsetning: Skipaskagi
Fujifilm X-T1
InnleggInnlegg: 20 Des 2010 - 0:09:38    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Takk fyrir þetta, skemmtileg lesning. Mikils virði að hafa myndir með svona grein. Finnst t.d. "Fängelsebacken" skemmtilega tvíræð mynd Very Happy
_________________
Hrannar Örn Hauksson
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda
Micaya


Skráður þann: 17 Des 2009
Innlegg: 5015


InnleggInnlegg: 20 Des 2010 - 1:35:26    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Hmm... ég hugsaði: "það lítur út fyrir að geðheilsa Karls sé í lagi, hann er nú ekki alveg genginn af göflunum, karlinn..." Very Happy

Ég held ég láti verða úr því að athuga þessa frægu ljósmyndara. Flickr er ágætt, en mig langar nú í smá "klass"

Gott
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst
ArnarBergur


Skráður þann: 08 Feb 2009
Innlegg: 7515
Staðsetning: Reykjavík
The Sexy thing - 6D
InnleggInnlegg: 20 Des 2010 - 1:59:57    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Gott
_________________
Myndasmiður
www.facebook.com/abmyndir
www.flickr.com/arnarbg
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst MSN-skilaboð
Throstur145


Skráður þann: 30 Nóv 2008
Innlegg: 545

Canon EOS 40D
InnleggInnlegg: 20 Des 2010 - 3:16:47    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Veit ekki, ég hef ekki enn náð að skilja myndirnar hans, en líklega er það vegna þess aðég er ekki nógu "þroskaður" ljómyndari.

Dæmi:
"Miðjusett diskókúla"
"Miðjusett tré í malbiki"

En maðurinn má eiga það að hann hefur oft komið með ágætis gagnrýni á myndir frá ykkur og er það vel.

Smá hux:
Hef verið að elta nokkra ljósmyndara á Feisbook og flestir hafa svarað vinabeiðni, en hann er einn þeirra fáu sem ekki hafa svarað þessu og fellur þá líklega inn í þann hóp að vera einn af elítunni.
_________________
Þröstur Unnar
897-1955
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst Heimsækja heimasíðu sendanda MSN-skilaboð
karlg


Skráður þann: 09 Okt 2007
Innlegg: 8352
Staðsetning: Sverige
Olympus
InnleggInnlegg: 20 Des 2010 - 5:51:56    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Throstur145 skrifaði:
Hef verið að elta nokkra ljósmyndara á Feisbook og flestir hafa svarað vinabeiðni, en hann er einn þeirra fáu sem ekki hafa svarað þessu og fellur þá líklega inn í þann hóp að vera einn af elítunni.


Eða einhver sem er ekki að safna Facebook vinum og samþykkir ekki fólk sem hann fattar ekki hver er eftir minniháttar rannsóknarvinnu. Það getur virkað ágætlega að senda skilaboð með þegar þú þekkir fólk ekki persónulega, eins og til dæmis „Hæ, Kalli, Þröstur af LMK hérna“, svo ég fatti hver er að senda vinarbeiðni. Það er varla gefið að ég muni eftir öllum notendum LMK sem eru ekki þeim mun virkari eða ég hef ekki átt persónuleg samskipti við.

Elíta Rolling Eyes
_________________
kal.li

„Strictly handheld is the style I go.“ – MCA


Síðast breytt af karlg þann 20 Des 2010 - 5:53:51, breytt 1 sinni samtals
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Heimsækja heimasíðu sendanda AIM-vistfang MSN-skilaboð
Sýna innlegg frá síðasta:   
Senda inn nýjan spjallþráð   Senda svar á spjallþráð    Forsíða -> Umræður -> Greinar Allir tímar eru GMT
Fara á blaðsíðu 1, 2  Næsta
Blaðsíða 1 af 2

 
Fara til:  
Þú getur ekki sent inn nýja spjallþræði á þessar umræður
Þú getur ekki svarað spjallþráðum á þessum umræðum
Þú getur ekki breytt innleggi þínu á þessum umræðum
Þú getur ekki eytt innleggjum þínum á þessum umræðum
Þú getur ekki tekið þátt í kosningum á þessum umræðum


Powered by phpBB © 2001, 2005 phpBB Group