Sjá spjallþráð - Pistill um lýsingu (oskar) :: www.ljosmyndakeppni.is
InnskráningInnskráning
Pistill um lýsingu (oskar)
Fara á blaðsíðu 1, 2, 3, 4, 5  Næsta
 
Senda inn nýjan spjallþráð   Senda svar á spjallþráð    Forsíða -> Umræður -> Greinar
Sjá síðustu spjallþræði :: Sjá næstu spjallþræði  
Höfundur Skilaboð
oskar


Skráður þann: 25 Nóv 2004
Innlegg: 9607

Canon 5D Mark III
InnleggInnlegg: 14 Sep 2005 - 20:47:36    Efni innleggs: Pistill um lýsingu (oskar) Svara með tilvísun

Mér datt í hug að skrifa smá pistil varðandi lýsingu, ég er auðvitað bara algjör amateur og er bara að skrifa þetta beint úr kollinum á mér. Ég vona samt að þetta geti hugsanlega komið einhverjum að smá gagni. Margir hafa ekki spáð mikið í ljós og hvernig það spilar inn í myndatöku, aðrir vita af þessu og enn aðrir eru búnir að stúdera lýsingu í áraraðir. Þessi lesning er auðvitað bara rétt grunnurinn en gefur vonandi ágæta lýsingu á því hvað þessi hluti ljósmyndunar snýst um.


Lýsing

Eitt mikilvægasta atriði ljósmyndar er lýsingin. Eins og nafnið gefur til kynna, þá er “ljósmynd” ekkert annað en mynd sem er búin til með ljósi. Frá upphafi hafa grunnatriðin verið alveg nákvæmlega eins varðandi ljósmyndun, því meira ljósi sem hver hlutur endurvarpar frá sér, því bjartari verður hann á myndinni. Gömlu filmurnar urðu fyrir vissum áhrifum vegna ljóss og stafrænar myndavélar nema ljósið, og byggja því á því sama. Það er því nokkuð ljóst að það sem skiptir mestu máli varðandi hvernig mynd kemur út hlýtur að vera hvernig ljós endurkastast frá myndefninu.

Hægt er að hafa ótrúlega mikla stjórn á því hvernig ljós fellur á myndefnið, og stjórna þannig skuggum og björtum svæðum á myndinni og ákveða þannig sjálfur hvernig útkoman verður.

Fyrir þá sem hafa ekkert spáð í þetta, þá er tími til kominn, því lýsing er alveg gríðarlega stórt atriði. Myndir geta hæglega verið flott lýstar bara með því að nota sólarljós eða í raun undir nánast hvaða kringumstæðum sem er. Grunnatriðið er bara að vera meðvitaður um hvað maður er að gera og átta sig á því hvernig maður getur haft áhrif á myndina. Það er rosalegur kostur að geta ákveðið fyrst hvernig maður vill hafa lýsinguna, og geta síðan gengið í það mál að gera hana eins og maður persónulega vill hafa hana í stað þess að láta gæði myndarinnar bara velta á heppni, hentugleika eða tilviljun. Þegar verið er að hugsa um lýsingu, þá eiga engar tilviljanir að eiga sér stað, heldur á myndatakan að ganga út á það að ná fyrirfram settu marki um það hvernig myndin eigi að líta út.

Það eru alveg milljón atriði sem hægt er að hugsa út í varðandi lýsingu, ég ætla rétt að renna snögglega í gegnum það allra mikilvægasta.


Áhrif lýsingar:
Hörð Lýsing: Það sem átt er við með harðri lýsingu er þegar það eru rosalega skörp og mikil skil milli skuggasvæðis og bjarts svæðis á myndefninu. Lýsing af þessu tagi myndast þegar það er notað ljós sem beinist á myndefnið óhindrað og dreifist lítið sem ekkert. Það er þægilegast að átta sig á þessu með því að hugsa um skugga sem fellur af manni utandyra. Þegar sólin skín á björtum degi þá eru skuggarnir mjög skarpir, en þegar það er hálfskýjað þá eru þeir mikið daufari og á skýjuðum degi eru skilin svo dauf að maður tekur ekki eftir skuggunum. Hörð lýsing kemur oft ekki vel út á myndum, þá eru það myndir þar sem það bara passar ekki að hafa harða lýsingu. Þetta sér maður oft þegar fólk notar flass sem er áfast á myndavélinni sinni, myndir teknar á björtum sumardegi án þess að notast sé við neitt nema sólina sem ljósgjafa og annað í þessum dúr. Það er, myndir sem eru teknar með hörðu sterku ljósi beint á viðfangsefnið. Vissulega er fjöldinn allur af myndum þar sem lýsing af þessu tagi kemur glimrandi flott út, og þá er um að gera að vera meðvitaður um að vita hvað maður er að gera og hvernig maður getur fengið fram svona lýsingu. Aðferðin til að ná fram harðri lýsingu mætti orða sem svo að maður á að nota lítinn ljósgjafa (lítið flatarmál ljósgjafa) sem beinist beint að myndefninu án þess að dreifa ljósinu.

Mjúk lýsing: Oft keppist fólk við að ná fram mjúkri lýsingu, það þarf hinsvegar að passa sig á því að hafa hana þá ekki of mjúka. Ef lýsing er of mjúk, þá koma fram alveg sömu áhrif eins og þegar það er skýjað úti, það einfaldlega koma engir skuggar. Það er auðvitað ekkert algilt að mynd þurfi að innihalda skugga, langt í frá. Hinsvegar verða myndir án nokkurra skugga rosalega flatar og með litlum contrast. Ef það er sá effect sem maður er að sækjast eftir að þá er auðvitað um að gera að mýkja lýsinguna eins mikið og maður getur. Gott er samt að gæta hófs því mynd teiknast upp af skuggum og björtum svæðum, ef það eru engir skuggar þá verður birtusviðsmunurinn í myndinni rosalega lítill og þá er hún með litlum contrast (lítill munur á dekksta og ljósasta fleti myndarinnar). Til að stýra því hversu mjúk lýsingin verður að þá verður maður að hafa stjórn á því hversu mikið ljósið dreifist. Til eru fjöldamargar aðferðir til að dreifa ljósi og verða nokkrar þeirra taldar upp hér á eftir.

Hér má sjá dæmi um misharða lýsingu:

Hörð lýsing, heiðskýrt


Milli mjúk lýsing, hálfskýjað


Mjúk lýsing, alskýjað


Birtuhitastig: Talað er um mismunandi hlýja birtu. Hlý birta er þá frekar rauð en köld birta svona blá. Myndir teknar í kvöldsól eru þá venjulega með mjög hlýrri birtu, á meðan tunglskinið er alveg svakalega kalt. Þessi litatónn sem kemur í myndina útfrá birtuhitastiginu getur haft mikil áhrif á yfirbragð myndarinnar, og svona tilfinninguna í myndinni. Það sem síðan spilar inn í þetta er “white balance”. Þegar mynd er í réttum white balance þá verður hvítt blað bara hvítt á mynd, ekki með rauðri eða blárri litaslikju. Til að stjórna þessu er allra besta leiðin að mynda á RAW og geta þannig stillt litina eftirá. Oftar en ekki langar manni að hafa white balance alveg réttann í myndatökunni í stað þess að laga hann eftirá, semsagt að láta það sem er hvítt koma út sem bara hvítt á myndinni. Til þess að ná því fram er oft hægt að stilla white balance stillinguna fyrir mismunandi ljósgjafa, og ná þannig betri stillingu en “auto” stillingunni. Einnig er oft hægt að nota “Kelvin gráður” eða “Custom white balance” sem ég mun ekki fara nánar út í hér, þar sem þetta er eitthvað sem stendur í bæklingum sem fylgja öllum myndavélum og er soldið mismunandi á milli myndavéla. Sé myndað með flassi, þá stillir maður myndavélina á flass “white balance” stillinguna og þá verður útkoman nokkuð rétt. Það sem líka er hægt að gera er að mynda gráspjald, eða láta gráspjald inn á eina mynd. Þannig getur maður eftirá stillt “white balance-inn” eftir gráspjaldinu.

Ljósgjafar:

Sólin: Þarna er ljósgjafi sem er til staðar hvern einasta dag en lýsingin frá sólinni er auðvitað mjög mismunandi eftir því hvernig skýjafarið er og hvað klukkan er. Þegar engin ský eru til staðar þá nær sólin að skína beint á viðfangsefnið og er því birtan mjög hörð. Því meira af skýjum sem er á himni því meira dreifist ljósið frá sólinni. Auðvitað er ekkert hægt að hafa áhrif á þetta, en það er mjög mikilvægt að vera alveg meðvitaður um það hvernig útkoman verður og skilja hvernig þetta ljós virkar.
Sé birtan mjög hörð frá sólinni skiptir máli hvernig myndefni snýr gagnvart sólinni, því skuggarnir verða harðir, miklir og mjög dökkir og því rosalega áberandi. Þegar unnið er með svona áberandi skugga þá þarf auðvitað að passa hvernig þeir falla, og hvaða svæði myndefnis séu í skugga og hvaða svæði ekki. Til dæmis er auðvelt að hugsa sér að ef sólin er neðarlega á himni og maður stillir upp manneskju til að mynda. Ef sólin er fyrir aftan manneskjuna þá er andlitið í skugga og verður allt of dökkt miðað við bakgrunninn nema “fill in” lýsing sé notuð. Sú lýsing gengur út að að maður hefur einn aðal ljósgjafa, sólina í þessu tilviki en síðan lýsir maður upp skuggana með öðrum ljósgjafa. Til dæmis að nota flass þegar þú tekur mynd af einhverjum að degi til, ef sá aðili er með sólina í bakið. Þannig lýsist andlitið upp án þess að bakgrunni sé breytt á nokkurn hátt. Þegar maður notar flass til að búa til þessa aukalýsingu, þá er oft gott að miða við að draga úr styrknum á flassinu um 1-2 stopp.


Hér má sjá dæmi um mynd þar sem fill flass er notað á annarri myndinni en ekki á hinni.
Áfast flass á myndavél: Eins og kannski margir hafa tekið eftir að þá eru dýrustu “pro” vélarnar ekki einu sinni með svona flassi. Það segir kannski soldið mikið um hvað það er takmarkað. Birtan frá þessu flassi er alltaf gríðarlega hörð og það er einfaldlega ekkert (nema fara einhverjar öfgafullar leiðir) sem maður getur gert í því. Skuggarnir verða því rosalega harðir og mjög sjaldan fallegir þar sem ljósið fellur frá svo leiðinlegu horni á myndefnið (í raun ekki frá neinu horni, heldur algjörlega beint frá myndavélinni). Auðvitað er þetta flass alveg nýtilegt, annars væri það ekki haft þarna á myndavélum. En það mun seint teljast heppilegt til notkunar ef maður ætlar sér að hafa mikla stjórn á lýsingunni. Sé þetta flass notað þá skal varast rosalega að hafa bakgrunn nálægt myndefninu, þar sem það falla ljótir og harðir skuggar á þann bakgrunn frá leiðinlegu horni. Auðvitað er ekki hægt að alhæfa svona, en í þessu tilfelli er það samt næstum því hægt. Annað sem þarf að passa soldið er það að snúa ekki myndavélinni og taka myndir í portrait. Það er vegna þess að flassið er staðsett fyrir ofan linsuna og þá verður lýsingin svona aðeins frá hlið en ekki nærri því nóg til að bæta myndina eitthvað og lang oftast kemur þetta frekar illa út.

Aukaflass sett á myndavél: Það er auðvitað hægt að fá svona aukaflöss í mjög mismunandi gæðastöðlum. Þau er hægt að fá þannig að flassið sé bara nánast auto og ekkert hægt að stýra því. Ef flassið er þannig að þá er svosem í raun ekki mikill munur á því flassi og áföstu flassi á myndavél, nema þá helst ef annað er öflugra. Hinsvegar eru flottu flössin með alveg fullt af fítusum sem maður getur nýtt sér til að til að stjórna lýsingunni. Hægt er að hafa mikil áhrif á hversu öflugt flassið er og þannig stjórnað hlutföllum á milli þess hversu mikill hluti lýsingarinnar kemur frá flassinu og hversu mikill hluti kemur frá til dæmis sólinni. Með því að stjórna hvernig maður blandar saman svona mismunandi ljósgjöfum getur maður fengið fram mismunandi birtuáhrif Annað sem oft er hægt að gera er að snúa hausnum á flassinu í allar mögulegar áttir. Þetta er alveg frábær kostur og býður manni upp á að geta mýkt lýsinguna alveg helling. Það er gert með aðferð sem kallast á ensku “bounce” og ég kýs að kalla bara endurkast. Þá tekur maður til dæmis mynd beint framan viðfangsefnið, en lætur flasshausinn vísa beint upp í loftið í stað þess að vísa honum framaná viðfangsefnið. Þá endurkastast ljósið af loftinu (gildir auðvitað bara ef þetta er gert innandyra með hóflegri lofthæð) og fer frá loftinu og á viðfangsefnið. Við það að endurkastast svona þá dreifist ljósið alveg rosalega og gefur því mikið mýkri lýsingu en ella, vegna þess að það er að koma frá stærri fleti og þannig úr fleiri áttum. Einnig breytist ljósgjafahornið við þetta frá því að vera beint á viðfangsefnið í það að vera frá öðru sjónarhorni. Þar af leiðandi verða skuggar bæði mýkri og í aðra stefnu en ella. Það er hægt að nota svona bounce á fleiri vegu en bara með því að láta flassið lýsa upp í loftið. Það er líka hægt að láta flasshausinn snúa til hliðar á hvítan flöt. Þá endurkastast ljósið þaðan og verður því lýsingin á myndefnið bæði mýkri og síðan líka frá hlið en ekki beint á það. Þarna ræður hugmyndaflugið eiginlega mestu um hvernig maður getur nýtt sér þennan eiginleika ljóss að endurkastast. Það sem ber helst að varast er að ef maður lætur ljós endurkastast af lituðum flöt, þá kemur litablær á ljósið og þannig á myndina. Til að mynda að ef maður lætur ljósið endurkastast af bláum vegg að þá verður það svipað og er maður hefði notað blátt ljós og myndin verður því öll með blárri slikju. Þetta er atriði sem maður þarf að vita af, bæði til að geta forðast það og eins til að geta nýtt sér það ef maður hefur áhuga á því.

Aukahlutir fyrir aukaflass á myndavél:
Ýmsir aukahlutir eru til fyrir flöss sem eru venjulega fest á myndavélar. Svokallaður “transmitter” er mjög skemmtilegt tæki sem virkar sem einskonar fjarstýring á flassið. Einnig er hægt að nota snúru til að fá fram sömu virkni. En með því að nýta sér þetta að þá getur maður haft flassið annarsstaðar en bara í “hot shoe” tenginu ofaná myndavélinni. Maður getur því stillt flassinu upp hvar sem er, með tilliti til þess hvaðan maður vill láta ljósið falla á myndefnið. Með því að stjórna áfallshorni ljóss getur maður haft alveg ótrúleg áhrif á hversu mikla dýpt mynd hefur og bara með þessari einu breytu getur maður stórbreytt myndum. Þetta er atriði sem fólk þarf virkilega að fikta sig áfram með og prófa sjálft. Það eru til dæmis til ýmsar reglur um það hvernig eigi að lýsa hefðbundið portrait (andlitsmynd) og þá skiptir staðsetning ljósanna einna mestu. Það skiptir auðvitað þannig séð ekki máli hvaða ljósgjafa þú notar, (flass, kastara, stúdíljós, sól....) það er staðsetningin ljósgjafans sem skiptir aðalmáli og þar af leiðandi er hægt að hafa mikið meiri stjórn á lýsingu myndarinnar með því að vera frjáls með staðsetningu flassins í stað þess að hafa það alltaf áfast á myndavélinni. Annar hlutur sem oft er notaður með svona flössum er búnaður til að dreifa ljósinu. Þessi búnaður er útfærður á mjög mismunandi hátt. Til er lítið plastloksem sett er framaná flassið, lítið "softbox" framaná eða einfaldlega hvítt plast sem endurkastar ljósinu. Allt miðar þetta að því að dreifa ljósinu og mýkja birtuna. Það er nefnilega hægt að dreifa ljósi með því að lýsa í gegnum eitthvað, rétt eins og að láta það endurkastast. Margir hafa séð stór ferköntuð “sofbox” þar sem ljósið er látið fara í gegnum einskonar dúk. Þessi softbox gera það að verkum að ljósið dreifist betur og ljósgjafinn verður stærri. Það er hægt að nota alveg milljón tegundir af efni til að lýsa í gegnum og það er svona þumalputtaregla að ef maður er að deyfa ljósið með einhverju, þá er maður um leið að dreifa því. Einnig það sem hefur komið fram áður að stór ljósgjafi gefur mjúka lýsingu og lítill ljósgjafi gefur harða lýsingu.

Norðurgluggi: Oft er talað um norðurglugga, þar sem hádegissólin skín ekki inn um hann, sem kjörinn ljósgjafa, þar sem þá kemur bara mjúk lýsing inn um hann, en ekki beint sólarljós. Með því að mynda svona innandyra með glugga sem ljósgjafa þá er maður kominn með lýsingu á hlið, í stað þess að vera með flass á vélinni eða ljósaperu í loftinu. Birtan er oft mjög skemmtileg sem fellur svona inn um glugga og oft talað um hana sem mjög náttúrulega birtu. Þá er átt við að skuggar eru frekar passlegir, aðeins er einn ljósgjafi og birtuhitastigið er í algjöru meðallagi.

Kastarar: Kallast líka “heit” ljós. Þarna er maður að vinna með stöðuga birtu í stað þess að eitthvað ljós blikki bara í örskotsstund á meðan maður smellir af. Kostirnir eru að þú sérð alltaf hvernig birtan fellur á myndefnið, hvar skuggar koma og þessháttar. Ókostirnir eru að þessi ljós eru ekkert rosalega öflug, nema ef þau eru mjög öflug að þá kemur alveg gríðurlegur hiti af þeim. Hinsvegar er hægt að búa sér til mjög ódýra en samt nokkuð skemmtilega lýsingu með kösturum. Það er talað um það að fyrir svona áhugamenn sem ekki eru tilbúnir að fara að kaupa sér stúdíóljós að þá sé þetta mjög góð lausn, og ég er alveg 100% sammála því. Þá er bara skroppið í Byko (eða hvað sem er) og keyptur svona vinnukastari. Til þess síðan að gera birtuna mýkri að þá er það þekkt ráð að hafa bökunarpappír fyrir framan kastarann. Ástæðan fyrir því er að það er ódýrt efni, sem dreifir ljósi og þolir vel hitann frá kastaranum. Góð ábending til þeirra sem nota svona kastara er að passa vel upp á white balance og nota helst RAW til þess að geta lagað white balance eftirá. Ástæðan er sú að það kemur rosalega hlý birta frá svona kösturum, en ekki normal dagsbirta eins og frá venjulegum flössum og stúdíóljósum. Hægt er að stilla white balence í mörgum vélum á “tungsten” og passar það nokkuð vel fyrir svona lýsingu.

Stúdíóljós: Þarna er auðvitað efni í heila ritgerð, en það er rosalega erfitt að ætla sér að útskýra þetta eitthvað öðru vísi en að leyfa fólki að prófa sig áfram og fikta. Stúdíóljós eru bara risastór flöss sem eru tengd við myndavélina hjá þér. Hægt er að nota frá einu upp í rosalegan fjölda ljósa, allt eftir því hvaða áhrif maður ætlar sér að fá fram. Algengt er að nota 1-2 ljós til að lýsa upp myndefni (t.d. manneskju) og svo önnur 2 til þess að lýsa upp bakgrunninn. Þegar ég segi algengt að þá á ég alls ekki við þetta sé nein regla, það er í raun ekkert sem gæti talist regla í þessum efnum. Maður notar ýmsa hluti til að hafa stjórn á þessum ljósum og til að láta þau vinna fyrir mann akkúrat eins og maður vill að þau geri. Softbox og regnhlífar eru mjög oft notaðuð og er það þá til þess að mýkja ljósið og dreifa því. Til eru óteljandi stærðir og gerðir af þessum apparötum öllum sem gefa mismunandi eiginlega. Mishart ljós, misdreift og þessháttar. Einnig eru líka notaðar svokallaðar “barn door” sem eru þá spjöld sem stýra því nákvæmlega á hvaða svæði ljósið lýsir og skermar svo önnur svæði af þannig að ekkert ljós skíni þangað. Með þessu getur maður stjórnað hvaða hluti maður lýsir með þessu ljósi, annað tæki sem gerir svipað er “http://farm4.static.flickr.com/3653/3461381698_d0e402ac70_o.jpg]snoot[/url]” en það gerir ljósið að svona “spot” ljósi, þar sem það er bara lítill afmarkaður hringur sem ljósið lýsir á. Þessi spot er oft notaður til að lýsa á lítinn ákveðinn hluta myndefnis eða líka sem hárljós, ljós sem er hugsað bara til að lýsa upp hárið og fá meira líf í það. Annað sem einnig er oft notað til þess að lýsa upp hár er “honeycomb” sem er mynstruð plata sem er mismunandi þykk eftir því hversu mikil áhrif það á að hafa. Þetta virkar á þann hátt að ljósið fer alveg beint í gegn, og dreifist nánast ekkert til hliðanna. Það er því hægt að stjórna því soldið hvaða svæði maður er að lýsa með þessu.
Auðvitað er alveg hellingur af meira dóti sem er notað í stúdíólýsingu, sem ég bæði hef ekki vit á, eða einfaldlega sé ekki tilgang með því að telja frekar hér upp (eða sem ég er að gleyma). Hvernig þessi stúdíóljós eru notuð fer síðan bara eftir færni og útsjónarsemi ljósmyndarans. Það sem margir sækjast eftir með því að nota þessi ljós er til dæmis að fá mjúka lýsingu og síðan kannski örlitla lýsingu frá gagnstæðri hlið til að lýsa upp skuggana. Hárljós til að fá ljós í hárið. Lýsa upp bakgrunn, til að ná honum soldið frá myndefninu og til að gera hvítann bakgrunn virkilega hvítan. Baklýsing er líka oft sniðug en þá er ljósgjafinn hafður á bakvið myndefnið og lýsir þannig í raun upp útlínurnar á myndefninu, þetta getur verið rosalega sniðugt þegar til dæmis er verið að mynda svart á svörtu. Þegar fólk heldur síðan áfram að pæla í þessu þá er mikið farið að spá í að skerma ljósin af, setja pappaspjöld og þessháttar hér og þar, því viss ljós eiga kannski bara rétt svo að lýsa á lítinn hluta myndefnis og það er vissulega hægt að missa sig algjörlega í smáatriðum þegar maður virkilega fer að hugsa út í þetta.

Aukahlutir til notkunar varðandi lýsingu:

“Reflector” – endurkastari: Þarna er maður bara í raun með færanlegann flöt til þess að endurkasta ljósi. Þetta er til bæði sem vírrammi með strekktum dúk eða einfaldlega sem stórar plötur úr léttu efni (eflaust til milljón útgáfur svosem). Svona reflectorar eru til í mismunandi litum. Hvítur endurspeglar mjúku og hreinu ljósi, silfraður endurspeglar harðara ljósi og gulllitaður endurspegglar hörðu og hlýju ljósi. Svona endurkastarar eru oft notaðir til þess að lýsa upp skuggasvæði myndar. Til að mynda ef manneskja er lýst aðallega frá vinstri, þá er hægri hlið hennar oft á tíðum OF dökk og þá er hægt að setja svona endurkastara þeim megin, sem tekur ljósið sem lýst er á vinstri hliðina og endurspeglar því yfir á hægri hliðina og lýsir hana þar með aðeins upp, en samt sem áður ekki nærri því jafn mikið eins og vinstri hliðina, þar sem ljósið er auðvitað mun sterkara en endurkastið.

“Spill kill” – ljósgleypir: Þetta er alveg eins og endurkastaraplöturnar, nema þessar plötur eru bara alveg mattar og svartar. Tilgangurinn með þessu er þveröfugur við tilgang endurkastaranna. Þessar plötur eru hugsaðar til þess að gleypa ljós. Tökum aftur dæmið með að lýsa manneskju frá vinstri. Ef mann langar að hafa þá hægri hliðina alveg rosalega dökka að þá myndi maður staðsetja svona plötu við hægri hlið manneskjunnar (í stað reflectors í dæminu þar sem maður vildi lýsa hliðina upp). Ástæðan fyrir þessu er að oftast er eitthvað í umhverfinu sem er að endurkasta ljósi, til dæmis bara næsti veggur og fleira. Þessi plata endurkastar hinsvegar nánast engu ljósi og því verður skuggahliðin ennþá dekkri en ella.


Hér má sjá nokkur dæmi um hvernig mismunandi uppstilling ljósabúnaðar gefur mismunandi lýsingu. Teikningar eiga að útskýra þetta mjög vel, en hlutirnir á þeim eru, reflector, bert stúdíóljós og stúdíóljós með regnhlíf (sem þjónar sama tilgangi og softbox)
Ýmislegt annað:
Það er margt sem hefur áhrif á lýsinguna í viðbót við það sem ég hef talað um hérna. Til dæmis má nefna það að stærð ljósgjafa skiptir máli. Allir glampar (“flare”) inni á mynd ráðast til dæmis af stærð ljósgjafans. Til að draga úr glömpum á mynd þarf maður að spá soldið í fyrirbæri sem er kallað “fjölskylda sjónarhorna”. Það er, maður þarf að hugsa um staðsetningu ljósgjafa og hvort endurkast af myndefninu fari inn í linsuna eða ekki. Það er frekar erfitt að lýsa þessu með orðum, en það er gott að ímynda sér bara að ef myndefnið er spegill og þú vilt hafa myndina glampafría að þá verður að passa að ljósgjafinn sjáist ekki í speglinum á myndinni. Auðvitað er oft ekki komist hjá því að fá einhvern glampa á myndina, til dæmis ef yfirborð myndefnis er mjög glansandi og kúpt. Þá getur maður þó haft áhrif á hvernig glampinn lítur út með því að breyta stærð ljósgjafans. Góð leið til dæmis til þess að ná glampafrírri mynd af bíl er að taka mynd af honum utandyra í ljósaskiptunum, þegar sólin skín ekki beint á hann og allur himininn eins og hann leggur virkar þá eins og gríðar stór ljósgjafi. Þá er í lagi að nefna að glampar af málmhlutum mega verða alveg hvítir. Þá á ég við að það er bara eðlilegt að þeir séu 100% hvítir og telst það ekki vera galli í mynd að sá glampi sé svona útbrunninn.

Margt fleira er hægt að tala um varðandi lýsingu í ljósmyndun. Þessi stutti pistill er bara rétt svona til að skýra út hver þessi meginhugtök eru og til að kenna svona grunnskrefin. Ef fólk hefur áhuga á því að læra meira um þetta þá eru auðvitað til ógrynnin öll af kennslubókum, allt frá því að vera mjög yfirgripsmiklar í það að vera rosalega sérhæfðar (sá einu sinni bók sem hét eitthvað á þessa leið “Lighting for nude photography, outside in nature during day time”). Síðan er það bara mitt ráð að vera ekki feimin við að prófa og pæla soldið og reyna þannig að öðlast skilning á þessu. Og endilega spyrja betur út í það sem ekki er nógu ýtarlegt, það eru fullt af snillingum sem eflaust geta útskýrt þetta mun betur en ég og hafa meira vit á þessu.

©2005,Óskar Páll Elfarsson


Myndir eru fengnar að láni frá www.ephotozine.com og www.twistedtreephoto.com þar sem ég er svo gríðarlega latur að ég nennti ekki taka mínar eigin útskýringamyndir.


Síðast breytt af oskar þann 21 Apr 2009 - 1:28:26, breytt 4 sinnum samtals
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst Heimsækja heimasíðu sendanda
oskar


Skráður þann: 25 Nóv 2004
Innlegg: 9607

Canon 5D Mark III
InnleggInnlegg: 14 Sep 2005 - 20:47:52    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Annars hvet ég nú bara alla til þess að fara að æfa sig í lýsingu, því sú æfing mun nýtast vel í næstu keppni, sem verður hugsuð til þess að fólk geti skapað sína eigin lýsingu.
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst Heimsækja heimasíðu sendanda
gummih


Skráður þann: 26 Nóv 2004
Innlegg: 1693

Canon 40D
InnleggInnlegg: 14 Sep 2005 - 20:57:44    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Shocked
.
.
.
.
Very Happy

Snilld! Exclamation
_________________
~ Ljósmyndir ~
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst Heimsækja heimasíðu sendanda
skipio


Skráður þann: 14 Des 2004
Innlegg: 4972

Ricoh GRD
InnleggInnlegg: 14 Sep 2005 - 21:06:20    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Svakalega flott (og löng) grein hjá þér Óskar. Gott
Vonandi að hún verði til þess að fleiri fari að æfa sig með lýsinguna.

Datt í hug annars að ef einhverjir vilja skoða notkun á fill-flassi betur að þá er hér fín grein um það frá Popular Photo.
_________________
Að horfa á eitthvað er gjörólíkt því að sjá það.“ - Oscar Wilde
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst Heimsækja heimasíðu sendanda MSN-skilaboð
smali


Skráður þann: 26 Nóv 2004
Innlegg: 1490
Staðsetning: Hafnafjörður
Canon EOS 1D Mark III
InnleggInnlegg: 14 Sep 2005 - 21:36:18    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Alltaf ertu magnaður Óskar.

Minntu mig á að klappa þér á bakið næst þegar ég hitti þig í þakkar skin.

Ég á eftir að brúka þetta.
_________________
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst Heimsækja heimasíðu sendanda MSN-skilaboð
Doddi


Skráður þann: 06 Apr 2005
Innlegg: 1237
Staðsetning: Kársnes
AGFA Silette - L Prontor 125 Agnar
InnleggInnlegg: 14 Sep 2005 - 22:00:10    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Þetta er stórkostleg og fræðandi grein.

Takk fyrir þetta.
_________________
betur sjá augu en eyru

http://www.flickr.com/photos/30529007@N06/
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst
Svanur


Skráður þann: 13 Jan 2005
Innlegg: 1508

Canon Ixus
InnleggInnlegg: 14 Sep 2005 - 22:02:34    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Takk Óskar, þetta er mjög gott hjá þér.
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst MSN-skilaboð
johannes


Skráður þann: 22 Des 2004
Innlegg: 2939


InnleggInnlegg: 14 Sep 2005 - 23:57:16    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Takk fyrir þetta.
_________________
Johannes.tv
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst Heimsækja heimasíðu sendanda MSN-skilaboð
KristjánGerhard


Skráður þann: 07 Mar 2005
Innlegg: 286

Canon 10D
InnleggInnlegg: 15 Sep 2005 - 0:09:03    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Fyrir þá sem hafa áhuga þá smellti ég þessu í .pdf svo ég gæti prentað þetta út.

Ef einhver er með vef-pláss til að hýsa þetta get ég mailað á hann og sá hinn sami póstað hlekkinn hér.

KG
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst
oskar


Skráður þann: 25 Nóv 2004
Innlegg: 9607

Canon 5D Mark III
InnleggInnlegg: 15 Sep 2005 - 16:49:06    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Já hey, þú kannski sendir mér allavega eintak.
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst Heimsækja heimasíðu sendanda
Gisli


Skráður þann: 10 Mar 2005
Innlegg: 143
Staðsetning: Reykjavik
Canon 1V
InnleggInnlegg: 15 Sep 2005 - 17:14:58    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Takk fyrir mig Óskar Very Happy
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst Heimsækja heimasíðu sendanda MSN-skilaboð
Malt


Skráður þann: 02 Des 2004
Innlegg: 2237
Staðsetning: Reykjavík
Canon 20D
InnleggInnlegg: 15 Sep 2005 - 17:38:12    Efni innleggs: Svara með tilvísun

KristjánGerhard skrifaði:
Fyrir þá sem hafa áhuga þá smellti ég þessu í .pdf svo ég gæti prentað þetta út.

Ef einhver er með vef-pláss til að hýsa þetta get ég mailað á hann og sá hinn sami póstað hlekkinn hér.

KG


*hvísl*höfundarréttarlög*hvísl* Wink
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst Heimsækja heimasíðu sendanda MSN-skilaboð
doristori


Skráður þann: 08 Jún 2005
Innlegg: 150

Canon Digital Ixus i
InnleggInnlegg: 15 Sep 2005 - 17:42:18    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Embarassed

Síðast breytt af doristori þann 15 Sep 2005 - 17:53:59, breytt 1 sinni samtals
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst
oskar


Skráður þann: 25 Nóv 2004
Innlegg: 9607

Canon 5D Mark III
InnleggInnlegg: 15 Sep 2005 - 17:49:52    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Hey - ef þetta fer pdf-að eitthvert út á netið, þá vil ég nú helst að það sé bara á síðuna mína, eða mögulega hér hjá ljosmyndakeppni Rolling Eyes
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst Heimsækja heimasíðu sendanda
SteinarHugi


Skráður þann: 01 Des 2004
Innlegg: 356
Staðsetning: Kópavogur
Canon EOS 1Ds MKII
InnleggInnlegg: 15 Sep 2005 - 22:54:35    Efni innleggs: Svara með tilvísun

Glæsileg grein hjá þér Óskar!

Svona fyrir þá sem vilja lesa meira þá á ég þrjár uppáhalds bækur sem fjalla m.a. um lýsingu:


Það er mjög stutt síðan Digital Fashion Photography kom út og því allar upplýsingar up to date. Mæli hvað helst með henni.
_________________
Steinar Hugi - ljósmyndir - Flickr
Til baka efst á síðu
Skoða notanda Senda einkapóst Senda póst Heimsækja heimasíðu sendanda MSN-skilaboð
Sýna innlegg frá síðasta:   
Senda inn nýjan spjallþráð   Senda svar á spjallþráð    Forsíða -> Umræður -> Greinar Allir tímar eru GMT
Fara á blaðsíðu 1, 2, 3, 4, 5  Næsta
Blaðsíða 1 af 5

 
Fara til:  
Þú getur ekki sent inn nýja spjallþræði á þessar umræður
Þú getur ekki svarað spjallþráðum á þessum umræðum
Þú getur ekki breytt innleggi þínu á þessum umræðum
Þú getur ekki eytt innleggjum þínum á þessum umræðum
Þú getur ekki tekið þátt í kosningum á þessum umræðum


Powered by phpBB © 2001, 2005 phpBB Group